Máttur matarins

Fæða sem forvörn

Heilafóður…

grænn smoothie

Þessa dagana er ég að berjast, og þá meina ég berjast, í gegnum regluverk Evrópusambandsins á einkaleyfum í líftækniiðnaði og það eina sem hjálpar mér er grænn smoothie. Ég ætla þess vegna að gefa mér smá tíma frá bókunum og skrifa örlítið um þennan smoothie og fleira skemmtilegt sem ég hef komist í kynni við síðan ég skrifaði síðast. Fyrst ber líklega að nefna nýju bókina hennar Kris Carr. Hún kom út í lok október og ég gat auðvitað ekki beðið þar til ég færi næst til Bandaríkjanna, og pantaði bókina á Amazon (fyrir ykkur sem fallið líka fyrir freistingum – hér). Bókin er eins falleg og upplífgangi eins og annað sem komið hefur frá Kris Carr í gegnum tíðina. Hún fékk til liðs við sig Chad Sarno, og saman töfra þau fram einfaldar og góðar uppskriftir. Það er þó þess virði að taka fram að allar uppskriftirnar eru án allar dýraafurða, sem er að sjálfsögðu hið besta mál, en fyrir þá sem eru nýir á þeirri braut getur bókin virst á köflum flókin. Uppáhaldið mitt í bókinni er misó- og engiferdressing sem ég gæti líklega borðað í heilan mánuð án þess að fá leið á. Hún er ekki ósvipuð misó dressingunni sem ég birti með kínóasalatinu á sínum tíma, nema með engifer og appelsínusafa í staðin fyrir mirin.

Hvað annan lestur varðar hef ég því miður ekki verið afkastamikil. Það eru tvær nýjar kokkabækur í hillunni hjá mér þessa dagana sem ég fletti mikið í gegnum, les og dáist af myndunum í. Önnur þeirra er íslensk og kom út fyrir jólin og mér finnst ég knúin til að fjalla aðeins um, því hún er hreint listaverk. Hún heitir Eldað og bakað í ofninum heima, góður matur – gott líf og er eftir hjónin Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Egil Hrafnsson. Þvílíkt sem þetta fólk er myndalegt og smekklegt. Bókin er algjörlega til fyrirmyndar hvað auðvitað fegurð og útfærslu varðar þó svo að uppskriftirnar séu kannski ekki allar alveg á minni línu. En girnilegar eru þær þó og alveg klárt mál að margar verða prófaðar hér á hátíðisdögum.

Hin bókin heitir Dinner, a love story og er eftir Jenny Rosenstrach. Ég keypti hana þegar ég var í New York núna í janúar en það má segja að myndskeiðið inni á Amazon af höfundinum hafi alveg náð að selja mér bókina.  Bókin segir frá því hvernig höfundinum tekst að vera útivinnandi tveggja barna móðir sem samt sem áður tekst að elda alltaf kvöldmat fyrir fjölskylduna og virkja börnin í að hafa áhuga á matargerðinni. Þetta hljómaði allt eins og verkefni sem mig langaði heldur betur að tileinka mér. Ég hef enn ekkert eldað upp úr henni og verð að viðurkenna að uppskriftirnar eru ekki þannig að ég hleyp út í búð til að kaupa í þær, en það kemur vonandi að því. Ég er ekki frá því að kjúklingur í apríkósu og sojamarineringu verði á boðstólnum á mínu heimili á morgun.

En hvað græna smoothie-inn varðar þá er þetta mín leið til að stæla grænu þrumuna í Lifandi Markaði. Ég verð þó alveg að viðurkenna að það væri voða þægilegt að losna við uppvaskið á bæði djúsvélinni og blendernum, en útkoman er þó þess virði. Ég hef lagt það í vana minn að gera töluvert ríflega að djúsnum og setja í flösku inn í ísskáp sem ég geymi, stundum til morguns, en drekk þó yfirleitt þegar líður á daginn. Maður þarf aðeins að hafa í huga að næringargildið rýrnar þegar djúsinn oxast. Þetta tekur drottning grænu djúsanna, Kris Carr, endurtekið fram. Ég fór á frábæran stað í New York sem heitir Organic Avenue og keypti mér grænan djús. Þeir eru seldir í sérlega fallegum glerflöskum sem eru tilvaldar til þess að geyma djús í inni í ísskáp, flaskan er ekki of stór og lokast vel. Mikilvægt er þó að reyna að fylla hana sem mest þannig að sem minnst súrefni sé í flöskunni við geymslu.

organic avenue

Og svona lítur flaskan út í ísskápnum hjá mér. En smoothie-inn geri ég á eftirfarandi hátt:

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: mangó, límóna, döðlur
Grænmeti: avókadó, spínat/klattasalat, sellerí
Hnetur og fræ: chia fræ, hampfræ (hamp prótein)
Krydd: engifer, cayenne pipar (chili)
Annað: macha te

Í djúsvél set ég:

2-3 epli – má líka vera 2 epli og 1 pera eða mögulega ananas
3 sellerístilkar
Engiferbútur
1/2 agúrka
1 límóna

Helmingurinn af djúsnum fer yfir í blenderinn með:

lúku af spínati/klettasalati
1/2-1 tsk. af macha te-i
1 tsk. hemp prótein
1 tsk. chia fræjum
4 mjúkum döðlum
frosnu mangó
smá cayenne pipar.

Síðan blanda ég þessu vel saman. Að lokum blanda ég saman við þetta avokadó. Best er að blanda því bara í stutta stund saman við, en þó nægilega lengi til að ekki verið kekkir í drykknum. Avokadó getur orðið dálítið leiðinlegt ef það blandast of lengi.

En ætli sé ekki best að ég blandi mér einn í hvelli og leggist svo aftur yfir bækurnar.

Filed under: avokadó, Bækur, chia fræ, chili, döðlur, Drykkir, engifer, epli, hemp fræ, klettasalat, mangó, matcha grænt te, pera, sítrus ávextir, sellerí, spínat, Uppáhalds, Vegan

Barnaafmæli og næringarríkt gúmmelaði

Dóttir mín verður þriggja ára á morgun og við héldum uppá afmælið hennar núna um helgina. Mér finnst mjög gaman að baka og hef lengi reynt að baka sykurlausar, smjörlausar og allslausar kökur sem ekki hafa fengið sérlega góðar viðtökur. Ég hef því tekið þá stefnu að fara ákveðinn milliveg þegar kemur að bakstri og hafa að leiðarljósi að kökurnar séu næringarríkar þó svo að þær innihaldi eitthvað af þessu slæma líka.

Afmæliskakan var gulrótakaka sem er orðin algjör skyldubakstur fyrir afmæli hér. Hún inniheldur fullt fullt af næringarríkum fæðutegundum, s.s. gulrætur, valhnetur, ananas,  döðlur og kókos, en kremið inniheldur það mikið af flórsykri að maður getur varla kallað kökuna í heild sinni holla. Ég er ekkert sérlega hrifin af flórsýkri en það virðist  vera frekar erfitt að finna krem á kökur sem inniheldur engan flórsykur. Verkefni ársins er því að útfæra gott krem á gulrótaköku sem ekki inniheldur haf af flórsykri. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir endilega sendir mér póst.

Auk þess gerði ég hnetusmjörskökur með súkkulaðibitum, heilsukókoskúlur með hamp fræjum og granólabita með aprikósum, jarðhnetum og trönuberjum. Þetta kom allt virkilega vel út og þetta gúmmilaði var allt mjög næringarríkt. Hér kemur uppskriftin að granólabitunum.

Uppskrift
passar í 20×20 kökuform

1 2/3 bolli tröllahafrar
1/2 bolli hrásykur
1/3 bolli byggflögur
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. kanill
1 bolli þurrkaðar aprikósur niðurskornar
1 bolli þurrkuð trönuber
1 bolli blanda af jarðhnetum, sesamfræjum og hörfræjum
1/3 bolli hnetusmjör
1 tsk. vanilludropar
5 msk. kókosolía
1/4 bolli hunang

Hitið ofninn í 180 °C.

Blandið öllum innihaldsefnum vel saman í skál. Best er að nota hendurnar til að allt blandist vel saman. Komið fyrir í bökunarformi og bakið í 25-30 mínútur eða þar til granólað er farið að brúnast að ofan. Látið kólna í ísskáp og skerið í bita.

Svo var ég með fullt af ristuðum hnetum og fræjum sem komu vel út. Ég ákvað að tæma skápana mína og notaði öll fræin og hneturnar sem ég átti. Ég myndi segja að þetta hafi verið milli 4 og 5 bollar af hnetum og fræjum (blanda af  möndlum, pekanhnetum, sesamfræjum, sólblómafræjum, hörfræjum og valhnetum). Ég blandaði þeim saman í eldföstu móti og hellti um það bil hálfum bolla af maple sírópi yfir og blandaði vel saman. Síðan setti ég um eina og hálf teskeið af garam masala saman við og rúmlega hálfa teskeið af salti. Þetta ristaði ég í ofni við 150 gráður í 10-15 mínútur eða þar til allt var búið að ristast. Mikilvægt er að muna að taka þetta út á nokkurra mínútna festi og hræra vel í til að það efsta brenni ekki og það neðsta ristist líka. Þegar þetta kom út úr ofninum þá lét ég allt kólna áður en ég blandaði súkkulaðidropum saman við. Ég notaði hvíta súkkulaðidropa í kremið fyrir gulrótakökuna þannig að afgangurinn á þeim fór í hentumixið. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég hins vegar keypt dökkt súkkulaði því það er langsamlega hollast. Endilega prófið. Þetta er frábært heilsuhnakk.

Filed under: aprikósur, bygg, döðlur, graskersfræ, haframjöl, hörfræ, hemp fræ, hnetur, kanill, möndlur, pekanhnetur, sætindi, sesamfræ, Uppáhalds, valhnetur, Vegan

Döðlukaka með súkkulaði, fíkjum og heslihnetum

Amma mín var vön að baka bestu döðluköku í heiminum. Döðlukökur eru þess vegna hálfgerð trúarbrögð í minni fjölskyldu og ég hef lengi ætlað mér stóra hluti í döðlukökugerð. Döðlur eru frábært sætuefni. Ég nota þær í mjög margt, út í smoothie-a, í hafragrautinn, sem snakk, í brauð og í bakstur. Ég ákvað um daginn að gera tilraun við döðlukökubakstur og útkoman var virkilega fín. Amma var vön að hafa kökuna í hollari kantinum, en ég ákvað að ganga skrefinu lengra. Ég notaði maple síróp, döðlur og fíkjur sem sætuefni. Auk þess eru heslihnetur, kanill og dökkt súkkulaði í kökunni og má því segja að kakan sé reglulega holl og næringarrík.

Uppskrift

3 egg
½ bolli maple síróp
10 ferskar döðlur niðurskornar
3 þurrkaðar gráfíkjur niðurskornar smátt
1 bolli fínmalað spelt
1 tsk. vínsteinslyftiduft
1 tsk. matarsódi
salt á hnífsoddi
1 bolli dökkur súkkulaðispænir
½ tsk. kanill
100 gr. hakkaðar heslihnetur (1 poki, u.þ.b. 1 bolli)

Hitið ofninn upp í 180°C.

Hrærið eggjum, maple sýrópi, döðlum og gráfíkjum saman í skál. Hrærið afganginum saman í annarri skál. Blandið þurrefnunum rólega saman við eggjahræruna og hrærið vel. Komið fyrir í smurðu formi og bakið í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn.

Filed under: döðlur, heslihnetur, kanill, sætindi, Uppskriftir,

10 árum yngri á 10 vikum og 4 smoothie-uppskriftir

Um helgina las ég nýju bókina hennar Þorbjargar Hafsteinsdóttur sem allt virðist ganga út á þessa dagana. Þetta er falleg bók, flott uppsett og mjög gott innlegg í það fátæklega úrval bóka sem fjalla um heilsutengd málefni á íslensku. Það má hins vegar í raun segja að ég hafi eiginlega spænt bókina í mig, hún er alveg ofboðslega fljótlesin og talsvert mikið um endurtekningar. Meginþemað í lífstíl Þorbjargar er svipað og hjá mörgum þeim aðilum sem ég les eftir í sambandi við krabbameinsforvarnir, þ.e. fæða sem er laus við sykur og hvítt hveiti. Þorbjörg leggur einnig mikla áherslu á holla fitu og próteinríkan mat. Þetta fellur vel að Life Over Cancer prógramminu sem ég fjallaði um fyrir nokkrum vikum og þá sérstaklega fyrir aðila sem eru vannærðir og eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð eða að byggja sig upp eftir slíka meðferð. Til að gera langa sögu stutta þá má eiginlega segja að ég mæli með bókinni fyrir alla þá sem vilja breyta um lífstíl og taka róttækt skref í átt að heilbrigðara líferni. Fyrir lengra komna er bókin að sjálfsögðu líka fín, en mér fannst kannski á einstaka stað vanta dýpri umræðu, en þó er eitthvað um tilvísanir í heimildir og svo er ágætur listi aftast í bókinni yfir bækur og fleira sem hún mælir með.

En í hvert skipti sem maður les bók eins og þessa þá bæði lærir maður eitthvað nýtt og tekur örlítið nýja stefnu, þó svo að stundum sé það aðeins tímabundið. Hjá mér var það hörfræjaolían sem ég ákvað að bæta inn hjá mér. Ég hef alltaf verið mikill talsmaður omega-3 ríkrar fæðu en yfirleitt notað fræin frekar en olíurnar. Ég nota chia fræ, hamp fræ og hörfræ mikið í smoothie-ana mína og mæli klárlega með því. En eftir að lesa bókina ákvað ég að byrja að nota hörfræjaolíuna líka í smoothie-ana. Þorbjörg leggur einnig mikla áherslu á próteinríka fæðu þannig að ég hef verið að passa að setja hamp duftið út í smoothieana líka. Ég er hrifnari af hamp prótíni heldur en mysupróteininu og nota það þess vegna. Hamp fæ ég aldrei nóg af því að tala vel um. Vonandi fara flysjuðu hamp fræin bara að fást á Íslandi.

Mig langar að enda umræðuna um bókina 10 árum yngri á 10 vikum á því að nefna að bókin inniheldur talsvert mikinn fróðleik um hórmónajafnvægi kvenna og sérstök vandamál tengd bæði óreglulegum blæðingum og breytingaskeiðinu. Þar leggur Þorbjörg mikla áherslu á neyslu hollrar fitu og það hve mikilvægt er að sniðganga sykurinn og hveitið. Þessa upplýsingar tel ég að geti hjálpað mörgum konum að vinna gegn bæði andlegum sem líkamlegum kvillum sem tengjast hórmónaójafnvægi í líkamanum.

Ég hef núna í tvo daga verið að búa mér til smoothie-a tvisvar á dag og ég held að prótínið og fitan í hörfræjaolíunni sé að verða til þess að ég helst södd lengur en áður. Ég verð vel södd og líður vel eftir að drekka þá. Hér koma uppskriftir að smoothie-unum sem ég hef drukkið síðastliðna tvo daga. En fyrst ein falleg mynd sem tekin var á toppi Snæfellsjökuls um helgina.

Uppskriftirnar inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir
: jarðaber, banani, límóna, hindber, döðlur, brómber, rifsber, acai ber
Krydd:
 cayenne pipar
Hnetur og fræ: 
hemp fræ, hörfræ,

Mettandi morgunsmoothie
fyrir 1-2

1 banani
1 bolli sojamjólk frá Provamel
1 tsk. bee pollen
1 ½ msk. hemp duft
1 ½ tsk. hörfræ
hindber (tæplega 1 bolli)
1 msk. hörfræolía
klakar

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Súkkulaðiparadís
fyrir 1-2

¾ bolli sojamjólk (frá Provamel)
½ bolli vatn
2 ½ tsk. lecitin granules
1 msk. hamp duft
½ tsk. acai duft
2 tsk. hrátt kakó
5 ferskar döðlur
1 stór frosinn banani
1 msk. hörfræjaolía

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Dúllusmoothie
fyrir 1-2

1 bolli sojamjólk
1 banani
1 msk. bee pollen
1 msk. hamp duft
1 msk. hörfræ
1 msk. hörfræolía
1 bolli frosin jarðaber
safi úr ½ límónu
cayenne pipar á hnífsoddi
smá klakar

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Skógarberjasmoothie
fyrir 1-2

¾ bolli sojamjólk frá Provamel
½ bolli vatn
1 msk. hamp duft
1 msk. lecithin granules
1 banani
1 bolli skógarberjablanda
klakar
1 msk. hörfræolía

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Njótið!

Filed under: acai ber, bananar, Bækur, brómber, chili pipar, döðlur, hörfræ, hemp fræ, hindber, jarðaber, Morgunmatur, sítrus ávextir, sojabaunir, Uppáhalds, Vegan,

Gestgjafinn og ofurfæði

Janúarhefti Gestgjafans hefur yfirskriftina Ofurfæði og er margt skemmtilegt í því að finna. Í blaðinu er fullt af fínum uppskriftum sem og upplýsingum um hollar og næringarríkar fæðutegundir. Ég keypti blaðið á föstudaginn og sé til dæmis að þar er verið að fjalla um engiferæðið sem ég hef einnig haft orð á hér. Það fer víst ekki framhjá neinum. Read the rest of this entry »

Filed under: döðlur, goji ber, granata epli, sætindi, spínat, spergilkál, Tímarit

Helgarhafragrautur

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: epli, döðlur
Kornmeti: hafrar
Krydd: kanill
Hnetur og fræ: sólblómafræ

Uppskrift
fyrir 3

1 bolli tröllahafrar
1/2 bolli fínmalaðir hafrar
1 grænt epli smátt skorið
1/2 tsk salt
1/2 tsk kanill
1 bolli létt mjólk
3 bollar vatn

Blandið öllu saman í pott og sjóðið þar til grauturinn er orðinn hæfilega þykkur fyrir ykkar smekk. Berið fram með niðurskornum döðlum og sólblómafræjum.

Filed under: döðlur, epli, haframjöl, kanill, Morgunmatur, sólblómafræ

Jólamúslí

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: döðlur, epli
Kornmeti: bygg, hafrar
Hnetur og fræ: hörfræ, sólblómafræ, sesamfræ
Krydd: kanill

Uppskrift
gerir um 9 bolla

3 bollar byggflögur
2 bollar tröllahafrar
3 msk. hörfræ + ½ bolli
15 stórar döðlur + 1 bolli niðurskornar
½ bolli eplamauk
3 msk. hlynsíróp
2 tsk. kanill
1 tsk. maldonsalt
100 gr. kókosolía
1 bolli sólblómafræ
1 bolli sesamfræ

Hitið ofninn upp í 160°C.

Maukið 15 döðlur, eplamauk, 3 msk. af hörfræjum, hlynsíróp, kanil og salt í matvinnsluvél og leggið til hliðar. Bræðið kókosolíuna í potti og blandið saman við maukið.

Blandið byggflögunum, tröllahöfrunum, ½ bolla af hörfræjum, sólblómafræjum og sesamfræjum í skál. Hellið maukinu yfir og blandið vel saman. Komið fyrir í ofnskúffu og ristið í 30 mínútur í ofni. Takið út og hrærið í á 10 mínútna fresti. Látið múslíið kólna og blandið þá niðurskornu döðlunum saman við. Berið fram með hreinu jógúrti eða ab mjólk og ferskum ávöxtum.

Filed under: bygg, döðlur, haframjöl, hörfræ, kanill, Morgunmatur, sólblómafræ, sesamfræ, Vegan

Kjúklingapottréttur með mangó og döðlum

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Ávextir: mangó, döðlur
Grænmeti:
laukur
Krydd og kryddjurtir: hvítlaukur, cayenne pipar, garam masala (kóríander, kúmin, engifer, negull, lárviðarlauf,)

Uppskrift
fyrir 6

6 kjúklingabringur
2 msk ólífuolía
2 rauðlaukar niðurskornir
3 hvítlauksrif marðir
1 tsk cayenne pipar
1 tsk garam masala
1 tsk túrmerik
nýmalaður svartur pipar
1 tsk paprikukrydd
1 stórt þroskað mangó smátt skorið
1 dós kókosmjólk
1 bolli döðlur niðurskornar
1 tsk salt
2 msk ferskt kóríander saxað

Hitið olíuna í potti og steikið laukinn í 5-7 mínútur, bætið þá hvítlauknum út í og steikið áfram í 2-3 mínútur. Bætið því næst cayenne pipar, garam masala, túrmeriki, svörtum pipar, paprikukryddi og kjúklingi og steikið í 5 mínútur til viðbótar. Hrærið nokkuð stöðugt svo að ekkert festist við pottinn. Bætið svo mangói, kókosmjólk, döðlum og salti út í og hrærið. Látið suðuna koma upp og lokið pottinum. Látið malla í 30 mínútur. Takið lokið af pottinum  og bætið fersku kóríander út í og látið sjóða og þykkna í 10-15 mínútur til viðbótar. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og naan brauði.

Filed under: döðlur, hvítlaukur, Karrý, kóríander, kúmin, Kjúklingur, laukur, mangó, negulnaglar, svartur pipar, túrmerik, Uppskriftir

Sætar kartöflur með döðlum og pekanhnetum

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: döðlur
Grænmeti: kartöflur, gulrætur
Krydd og kryddjurtir: engifer, kanill, pekanhnetur

Uppskrift
fyrir 3-4

1 msk. kókosolía
1 msk. ólífuolía
1 msk. ferskt engifer smátt saxað
2 sætar kartöflur skornar í teninga
20 litlar babygulrætur eða 3 stórar skornar í bita
10 góðar döðlur niðurskornar
1/4 bolli malaðar pekanhnetur
1/8 tsk. kanill
1/2 tsk. salt
1/2 bolli vatn

Hitið olíuna á pönnu og steikið engiferið í 20-30 sekúndur. Bætið sætum kartöflum, gulrótum, döðlum, kanil, salti og vatni út í og látið malla í 5-7 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Hellið möluðum pekanhnetum yfir og berið fram.

Filed under: döðlur, engifer, gulrætur, kanill, kartöflur, Kartöflur, pekanhnetur, Uppskriftir, Vegan, , , , ,

Krabbamein

Á hverju ári greinast yfir 12 milljónir manns í heiminum með krabbamein og yfir 7 milljónir deyja vegna sjúkdómsins. Þrátt fyrir þessar ógnvekjandi tölur er krabbamein sjúkdómur sem margir telja að hægt sé að koma í veg fyrir með heilbrigðum lífstíl og réttu mataræði. World Cancer Research Fund hefur fullyrt að þriðja hvert krabbameinstilfelli tengist beint lélegu mataræði og þá yfirleitt skorti á fæðu úr plönturíkinu. Af þessu leiðir að óhollt mataræði er orðið gífurlega alvarlegt vandamál í heiminum og er brýnt að gripið sé inn í með uppfræðslu um nauðsyn holls mataræðis og heilbrigðra lifnaðarhátta. Fjöldi rannsókna sýna fram á mátt vissra fæðutegunda til þess að vinna gegn krabbameinsfrumum í líkamanum og þannig uppbyggingu lífshættulegra meina.

Staðreyndir

Ekkert lyf eða vítamín getur komið í stað heilsusamlegs mataræðis, sem er uppfullt af næringu úr jurtaríkinu, snautt af mettaðri fitu, ríkt af fjölómettuðum omega-3 fitusýrum og þar sem trefjaríkar kornvörur eru kjölfestan í þeim kolvetnum sem borðuð eru.
Tengsl milli krabbameins og bólgu eru mikil og margar tegundir æxla virðast helst myndast í bólguvef. Ýmsir bólgusjúkdómar auka því líkurnar á krabbameini í viðkomandi líffærum.
Mikil neysla á fæðu sem inniheldur óholla fitu, sykur og rautt kjöt samfara skorti á fæðu úr jurtaríkinu veldur bólguhvetjandi ástandi í líkamanum, sem á sama tíma eykur líkurnar á myndun krabbameins.
Omega-3 fitusýrur eru bólguhemjandi á meðan omega-6 fitusýrur eru bólguhvetjandi. Því er mikilvægt að jafnvægi sé milli þessara tveggja fitusýra í líkamanum.
Flestir innbyrða u.þ.b. 25 sinnum meira af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum. Þetta stuðlar að bólguviðbrögðum í líkamanum sem getur aukið líkurnar á krabbameini.
Enginn getur útrýmt hættunni á því að þróa með sér krabbamein. En fólk getur hins vegar minnkað líkurnar talsvert með því að taka ábyrgð á eigin heilsu og gera þær lífstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru.

Hafa samband

Ég heiti Þórunn Steinsdóttir og er lögfræðingur og einnig mikil áhugamanneskja um matargerð, holla lifnaðarhætti og forvarnir gegn krabbameini. Ég eyði miklum tíma í matargerð og að kynna mér mikilvægi heilbrigðs mataræðis sem forvörn gegn krabbameini. Hér mun ég miðla upplýsingum um efnið og uppskriftum sem innihalda fæðutegundir sem vinna gegn krabbameini.
Endilega sendið mér tölvupóst ef upp vakna spurningar um efni síðunnar á matturmatarins@gmail.com.

Sláið inn tölvupóstfang og ýtið á "gerast áskrifandi"

Join 403 other followers

Flokkar

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 403 other followers

%d bloggers like this: