Máttur matarins

Fæða sem forvörn

Tælenska æðið – tveir góðir réttir

Ég virðist vera með æði fyrir tvennu þessa dagana, þ.e. tælenskum mat og hindberjum.  Ég rúlla milli tælensks og indversks æðis og geri ráð fyrir að indverski maturinn fari að detta inn á næstunni þar sem ég var að fá fjórar bækur um indverska matargerð í póstinum rétt í þessu.

Mig langar að deila með ykkur tveimur góðum uppskriftum að tælenskum mat.Sú fyrri er uppskrift sem ég geri mjög reglulega og hef í raun fjallað áður um hér á síðunni. Ég er enn að þróa hana og langar þvi að deila með ykkur nýjustu útgáfunni. Ég er svo yfir mig hrifin af pak choy þessa dagana og tel Garðyrkjustöðina Engi eiga skilið sérstakt hrós fyrir að framleiða þetta stórkostlega ofurfæði. Pak choy er mikið notað í kínverska og tælenska matargerð, sem og aðra asíska matargerð, og er einnig oft kalla bok choy. Pak choy er sérlega ríkt af C vítamíni sem og A og K vítamíni en einnig mjög ríkt af kalki, kalíumi og magnesíumi. Það er einnig talið hafa eiginleika til að vinna gegn myndun og vexti krabbameins (sjá til dæmi hér og hér). Ég tók stuttan netrúnt og fann ýmislegt í þá áttina. Endilega kíkið á:

Umfjöllun Dr. Oz um 5 krabbameinshamlandi fæðutegundir, m.a. Pak choy.

Umfjöllun á heimasíðu Lance Armstrong um pak choy

Ég býst við að pak choy fáist í flestum heilsubúðum. Ég keypti það í Melabúðinni – þar er alltaf gott úrval. Ég notaði pak choy í  báðar uppskriftirnar. Hér kemur fyrri uppskriftin. Byrjum samt á einni mynd af pok choy, íslenskri papriku og tælensku basil sem allt fóru í réttinn.

Ég er nýbyrjuð að nota tælenskt basil. Það er allt öðruvísi en hin hefðbundna basilika sem við setjum á caprese salatið með mozarella ostinum og tómötunum. Þessi lyktar eins og lakkrís og minnir því óneitanlega á fennel og anís. Ég þorði nú ekki að setja mikið en mun án efa þróast í þessu með tímanum.

Næst var það engifer og hvítlaukur, já og nóg af báðu. Í uppskriftinni eru 3 msk. af sökuðu fersku engiferi og 2 msk. saxaður hvítlaukur. Ég fæ að sjálfsögðu ekki nóg af því að tala um jákvæða eiginleika bæði hvítlauks og engifers en ég geri þó ráð fyrir að flestum lesendum síðunnar sé orðið nokkuð ljóst að hér eru ofurkrydd á ferð. Fyrsta innleggið á facebook veggnum mínum var um engifer núna þegar ég opnaði tölvuna og ætla ég því að láta það duga sem innlegg í hvítlauks- engiferumræðuna þessu sinni. Kíkið á umfjöllunina hér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Grænmeti: pak choy, paprika
Krydd: 
hvítlaukur, engifer, chili, túrmerik, rautt karrý
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað með eldhúspappír og skorið í bita
1-2 msk. hágæða olía til steikingar (t.d. repjuolía frá Rapunzel)
1/2 poki pak choy frá Engi
1 stór græn paprika niður skorin
1 stór rauður chili pipar smátt saxaður
3 msk. saxað ferskt engifer
2 msk. saxaður hvítlaukur
1 tsk. túrmerik + svartur pipar
2-3 msk. rautt karrýmauk
1 dós kókosmjólk
2 msk. fiskisósa
4 lime lauf (fást þurrkuð úr sömu línu og tælenska basilið á myndinni hér að ofan)
1 msk. hunang
1/4-1/2 tsk. tælenskt basil

Byrjið á því að hita olíuna og steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Gætið þess að vera búin að þerra tófúið vel áður en byrjað er að steikja – annað gerir steikinguna erfiða. Takið tófúið af pönnunni og bætið hvítlauk, engiferi, papriku og chili á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því næst rauðu karrýi, túrmeriki og svörtum pipar og steikið áfram í tæpa mínútu. Hellið þá kókosmjólk og fiskisósu saman við og hrærið vel. Bætið lime laufum, pak choy og hunangi saman við og látið malla í 5-7 mínútur. Bætið tófúinu saman við sem og basili. Saltið örlítið eftir smekk og berið fram með hrísgrjónum.

Og síðan er komið að seinni uppskriftinni. Hún var ekki verri. Ég notaði líka tófú í hana en að sjálfsögðu er hægt að nota kjúkling eða bara grænmeti ef ykkur hugnast það frekar. Ég notaði aftur pak choy en auk þess hnúðkál. Ég held að minnsta kosti að það sé íslenska þýðingin. Þetta kallast romanesco á ensku og er notað í eina af mínum uppáhalds uppskriftum á 101cookbooks heimasíðunni sem ég er svo hrifin af (sjá uppskriftina hér). Ég get ekki talið öll skiptin sem við gerðum þessa uppskrift í Vancouver. En aftur að efninu. Það sem er einnig sérstakt við þessa uppskrift er að ég notaði ferska shitake sveppi í hana. Þá fékk ég, eins og pok choy, í yndislegu Melabúðinni. Hér kemur mynd af þessum flottu sveppum sem ég nældi mér í.

Shitake sveppir eru taldir hafa einstakan lækningamátt. Bandaríska krabbameinstofnunin fjallar um krabbameinshamlandi áhrif shitakesveppsins á mjög athyglisverðan hátt þar sem fram kemur að shitake sveppurinn styrki ónæmiskerfi líkamans og þannig vinni gegn myndun krabbameins. Sjá nánar um þetta hér. En nú held ég að ég sé að setja lengdarmet og ætla því að koma uppskriftinni frá mér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: pak choy, hnúðkál, laukur
Sveppir: shitake sveppir
Krydd: 
hvítlaukur, chili
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað og skorið í bita
sesamolía til steikingar
1 blaðlaukur skorinn í mjóar ræmur
1 haus hnúðkál/romanesco skorinn í bita
1 pakki shitakesveppir – 150 gr.
2 msk. soja sósa
(ég átti ekki til gulrætur en mun án efa setja þær með næst)

Hnetusósan
1 msk. sesamolía
2 hvítlauksrif smátt söxuð
1-2 rauðir chili fræhreinsaðir og saxaðir
3/4 bolli jarðhnetur
2/3 bolli kókosmjólk
2 msk. hoisin sósa
1 msk. soja sósa
1 msk. hunang

Gott er að byrja á því að gera hnetusósuna og láta hana standa á meðan allt annað er gert ready. Hitið olíuna og steikið hvítlauk og chili þar til það er farið að brúnast. Bætið þá hnetunum saman við og látið þær krauma í 2-3 mínútur á pönnunni. Bætið síðan afgangnum af innihaldsefnunum saman við og látið malla í nokkrar mínútur – eða þar til sósan er orðin þykk og girnileg.

Næst er að steikja tófúið. Steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Tófústeikingarsérfræðingurinn á mínu heimili tók þetta að sér og það leit svona út eftir steikingu – frekar flott hjá honum.

Eins og sést á myndinni er tófúið steikt og því næst tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Næst er að steikja grænmetið. Notið áfram sesamolíu til steikingar og byrjið á að steikja hnúðkálið og sveppina, síðan blaðlaukinn og pak choy-ið. Hellið því næst sojasósunni yfir. Bætið tófúinu á pönnuna og blandið saman við. Hellið hnetusósunni yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!

Filed under: basil, chili, chili pipar, engifer, hnúðkál, hnetur, hvítlaukur, laukur, paprika, Sósur, sojabaunir, svartur pipar, Sveppir, Tófú, túrmerik, Uppáhalds, Vegan, , , , , , , , , ,

Barnaafmæli og næringarríkt gúmmelaði

Dóttir mín verður þriggja ára á morgun og við héldum uppá afmælið hennar núna um helgina. Mér finnst mjög gaman að baka og hef lengi reynt að baka sykurlausar, smjörlausar og allslausar kökur sem ekki hafa fengið sérlega góðar viðtökur. Ég hef því tekið þá stefnu að fara ákveðinn milliveg þegar kemur að bakstri og hafa að leiðarljósi að kökurnar séu næringarríkar þó svo að þær innihaldi eitthvað af þessu slæma líka.

Afmæliskakan var gulrótakaka sem er orðin algjör skyldubakstur fyrir afmæli hér. Hún inniheldur fullt fullt af næringarríkum fæðutegundum, s.s. gulrætur, valhnetur, ananas,  döðlur og kókos, en kremið inniheldur það mikið af flórsykri að maður getur varla kallað kökuna í heild sinni holla. Ég er ekkert sérlega hrifin af flórsýkri en það virðist  vera frekar erfitt að finna krem á kökur sem inniheldur engan flórsykur. Verkefni ársins er því að útfæra gott krem á gulrótaköku sem ekki inniheldur haf af flórsykri. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir endilega sendir mér póst.

Auk þess gerði ég hnetusmjörskökur með súkkulaðibitum, heilsukókoskúlur með hamp fræjum og granólabita með aprikósum, jarðhnetum og trönuberjum. Þetta kom allt virkilega vel út og þetta gúmmilaði var allt mjög næringarríkt. Hér kemur uppskriftin að granólabitunum.

Uppskrift
passar í 20×20 kökuform

1 2/3 bolli tröllahafrar
1/2 bolli hrásykur
1/3 bolli byggflögur
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. kanill
1 bolli þurrkaðar aprikósur niðurskornar
1 bolli þurrkuð trönuber
1 bolli blanda af jarðhnetum, sesamfræjum og hörfræjum
1/3 bolli hnetusmjör
1 tsk. vanilludropar
5 msk. kókosolía
1/4 bolli hunang

Hitið ofninn í 180 °C.

Blandið öllum innihaldsefnum vel saman í skál. Best er að nota hendurnar til að allt blandist vel saman. Komið fyrir í bökunarformi og bakið í 25-30 mínútur eða þar til granólað er farið að brúnast að ofan. Látið kólna í ísskáp og skerið í bita.

Svo var ég með fullt af ristuðum hnetum og fræjum sem komu vel út. Ég ákvað að tæma skápana mína og notaði öll fræin og hneturnar sem ég átti. Ég myndi segja að þetta hafi verið milli 4 og 5 bollar af hnetum og fræjum (blanda af  möndlum, pekanhnetum, sesamfræjum, sólblómafræjum, hörfræjum og valhnetum). Ég blandaði þeim saman í eldföstu móti og hellti um það bil hálfum bolla af maple sírópi yfir og blandaði vel saman. Síðan setti ég um eina og hálf teskeið af garam masala saman við og rúmlega hálfa teskeið af salti. Þetta ristaði ég í ofni við 150 gráður í 10-15 mínútur eða þar til allt var búið að ristast. Mikilvægt er að muna að taka þetta út á nokkurra mínútna festi og hræra vel í til að það efsta brenni ekki og það neðsta ristist líka. Þegar þetta kom út úr ofninum þá lét ég allt kólna áður en ég blandaði súkkulaðidropum saman við. Ég notaði hvíta súkkulaðidropa í kremið fyrir gulrótakökuna þannig að afgangurinn á þeim fór í hentumixið. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég hins vegar keypt dökkt súkkulaði því það er langsamlega hollast. Endilega prófið. Þetta er frábært heilsuhnakk.

Filed under: aprikósur, bygg, döðlur, graskersfræ, haframjöl, hörfræ, hemp fræ, hnetur, kanill, möndlur, pekanhnetur, sætindi, sesamfræ, Uppáhalds, valhnetur, Vegan

Hafragrautur með hnetusmjöri og mórberjum

Ég er einstaklega mikil hafragrautmanneskja og get auðveldlega borðað hafragraut í kvöldmat á laugardagkvöldi, eins og ég reyndar gerði síðastliðið laugardagskvöld. En fyrst það var nú laugardagskvöld fannst mér alveg ástæða til að gera aðeins meira úr grautnum. Þess vegna ákvað ég að prófa saman hnetusmjör, mórber, kanil og banana. Þetta kom rosalega vel út.

Mig langar aðeins og fjalla um trefjar þar sem ég hef tekið eftir mikilli umræðu og áherslu á djúskúra og detox þar sem einungis eru drukknir nýpressaðir ávaxta- og grænmetissafar. Þessir kúrar eru mjög góðir og gagnlegir í stuttan tíma og hjálpa líkamanum að hreinsa sig og bæta, án þess að þurfa að melta mikið magn af trefjum. Öll orkan sem líkaminn fær úr þessum næringarríku söfum er þannig nýtt í að bæta líkamann og efla heilsu og vellíðan. En þrátt fyrir að kúrar sem þessir séu gott frí fyrir meltinguna þá hef ég líka miklar trú á mikilvægi trefja og er því sannfærð um hollustueiginleika gamla góða hafragrautsins. Þegar ég var að undirbúa mig fyrir námskeið sem ég hélt hjá Krabbameinsfélaginu fyrir stuttu renndi ég í gegnum margar af þeim bókum sem ég á um krabbameinsforvarnir og áhrif fæðu á vöxt og myndun krabbameins og í bókinni Life Over Cancer fjallar Keith Block talsvert um trefjar. Þar segir m.a. –,,Fiber dilutes, binds, inactivates and removes carcinogens, cholesterol, bile acids and various toxic substances.” – Í lauslegri íslenskri þýðingu minni þýðir þetta: Trefjar útþynna, binda, gera óvirk og fjarlægja krabbameinsvaldandi efni, kólesterol, gallsýru og önnur eiturefni úr líkamanum. Höfum þetta í huga!

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Ávextir: banani, mórber
Krydd: kanill
Kornmeti: hafrar
Hnetur: jarðhnetur

Uppskrift
fyrir 2-3

1 bolli tröllahafrar
2 bollar vatn
2 msk. mórber
1-2 msk. gróft hnetusmjör
örlítið salt
1 banani niðurskorinn
hunang
kanill

Sjóðið saman tröllahafra, vatn, hnetusmjör, mórber og salt þar til grauturinn er orðinn þykkur og hafrarnir hafa dregið í sig vatnið. Hellið í skálar. Skerið niður bananana og dreifið yfir grautinn ásamt kanil og örlitlu hunangi. Berið fram.

Filed under: bananar, haframjöl, hnetur, kanill, mórber, Morgunmatur, Vegan,

Verum jákvæð og borðum hnetusósu!

Ég hef  verið ákaflega annars hugar síðastliðnar vikur og því ekki skrifað mikið né eldað. Það er nóg að gera í skólanum, endaspretturinn að fara í gang, vorið að koma, hugleiðingar um sumarið og framtíðina taka mikið headspace. Og svo auðvitað Icesave. Ég ætla alveg að hlífa lesendum við mínum skoðunum á því máli en hins vegar vonast ég til þess að fólk láti þetta mál ekki hafa of mikil áhrif á sig, horfi á Þingvelli hér að ofan og björtu hliðarnar í lífinu, brosi, verði jákvætt, hreyfi sig, borði hollt og andi með nefinu, eins og einhver sagði. En yfir í matinn. Read the rest of this entry »

Filed under: blómkál, chili, engifer, gulrætur, hnetur, hrísgrjón, hvítlaukur, kínóa, laukur, núðlur, sítrus ávextir, Sósur, spergilkál, Uppáhalds, Vegan, , , , , , ,

Pad Thai með tófú

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: sítrus ávextir
Grænmeti: laukur, gulrætur, paprika
Krydd og kryddjurtir: hvítlaukur, kóríander
Kornmeti: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

2 msk. kókosolía
400 gr. þétt tófú
5 skarlottulaukar
4 hvítlauksrif marin
2 gulrætur skornar í þunnar ræmur
1 rauð paprika skorin í þunnar ræmur
2 egg hrærð
250 gr. hrísgrjónanúðlur
2 bollar baunaspírur
2 bollar kínakál
2 msk. ferskt kóríander saxað
2 msk. jarðhnetur smátt saxaðar

Sósa
1 1/2 msk. sojasósa
1 msk. tamarind mauk
1 msk. límónusafi
2 tsk. palm sykur eða hrá sykur

Blandið saman innihaldsefnum í sósuna og leggið til hliðar.

Hitið 1 msk kókosolíu á wok pönnu og steikið tófúið þar til það hefur brúnast. Takið tófúið af pönnunni og leggið til hliðar. Hitið afganginn af kókosolíunni og steikið laukinn og hvítlaukinn í u.þ.b. 2 mínútur. Bætið þá gulrótum og papriku á pönnuna og steikið í aðrar 2 mínútur. Hellið hrærðu eggjunum yfir og hrærið og látið eggin steikjast í smá stund. Bætið núðlunum út í og hrærið vel saman við. Steikið í 1-2 mínútur. Bætið sósu, tófúi, baunaspírum, kínakáli og kóríander saman við og hrærið. Lækkið hitann niður. Stráið jarðhnetum yfir og berið fram.

Add to DeliciousAdd to DiggAdd to FaceBookAdd to Google BookmarkAdd to Twitter

Filed under: gulrætur, hnetur, hvítlaukur, kál, kóríander, laukur, paprika, sítrus ávextir, Tófú, Uppskriftir, Vegan, , , , , , , , , ,

Buff með bragðmikilli hnetusósu og gufusoðnu grænmeti

Buff með brúnum hrísgrjónum, búlgur og byggi

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Kornmeti: Brún hrísgrjón, bygg, sojabaunir
Grænmeti: rauðrófur
Hnetur: valhnetur, sesamfræ
Krydd: svartur pipar

Uppskrift
gerir 12-15 buff

1 bolli brún hrísgrjón
1/2 bolli búlgur
1/2 bolli bygg
300 gr mjúkt tófú
1/2 bolli rauðrófusoð (eða annað gott grænmetissoð)
1/2 tsk salt
1 msk ristuð sesamolía (eða venjuleg sesamolía)
2 bollar valhnetur saxaðar örsmátt/hakkaðar í matvinnsluvél
1 bolli gróf brauðmylsna
nýmalaður pipar
kókos
svört sesamfræ
kókosolía

Sjóðið brúnu hrísgrjónin, byggið og búlgurið saman í potti í samræmi við upplýsingar á pakka hrísgrjónanna. Minnkið vatnsmagnið um 1/2 bolla og setjið rauðrófusoð/grænmetissoð í staðinn. Þerrið tófuið lítillega og leggið í skál. Bætið salti, sesamolíu, valhnetum, brauðmylsnu og svörtum pipar út í og hrærið. Bætið því næst hrísgrjónablöndunni út í og hrærið vel saman við. Ef buffið er of blautt getur þurft að bæta örlítið meiri brauðmylsnu út í (fer yfirleitt eftir því hve mikill vökvi er í tófúinu). Hnoðið hvert buff lítillega í höndunum þegar það er mótað. Veltið upp úr blöndu af svörtum sesamfræjum og kókosmjöli og steikið á pönnu við miðlungshita í 4-5 mínútur á hverri hlið, eða þar til buffið hefur brúnast vel. Berið fram með gufusoðnu grænmeti og bragðmikilli hnetusósu.

Tilvalið að frysta þau buff sem ekki eru borðuð og hita upp í ofni þegar tækifæri gefst.

Bragðmikil hnetusósa

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: laukur
Krydd: Hvítlaukur, engifer, sterkt madras karrý (kóríander fræ, fennel fræ, chili, sinnepsfræ, svartur pipar, fenugreek fræ, túrmerik, karrýlauf), cayenne pipar (chili)
Hnetur: jarðhnetur

Uppskrift
fyrir 4

1 rauðlaukur skorinn í þunnar ræmur
4 hvítlauksgeirar marðir
1 msk ólífuolía
1 bolli heitt vatn
1/2 tsk sterkt madras karrý
1 msk ferskt engifer, smátt saxað
1/2 bolli hágæða hnetusmjör
2-3 msk sojasósa
1/4 tsk cayenne pipar

Hitið olíuna á pönnu og steikið laukinn í  3-4 mínútur við miðlungshita. Bætið því næst hvítlauknum og karrýinu út í og hrærið saman við. Steikið í 2-3 mínútur til viðbótar. Lækkið hitann og bætið engiferi, hnetusmjöri og heitu vatni út í og hrærið saman við. Hrærið í nokkrar mínútur. Bætið þá sojasósu (2 msk) og cayenne pipar saman við og hrærið vel. Bætið vatni út í til að þynna sósuna ef þess þarf og bætið við afgangnum af sojasósunni eftir smekk. Látið malla í 2-3 mínútur. Berið fram með gufusoðnu grænmeti og buffi eins og sýnt er hér að ofan, eða með brúnum hrísgrjónum og gufusoðnu grænmeti.

Add to DeliciousAdd to DiggAdd to FaceBookAdd to Google BookmarkAdd to Twitter

Filed under: Buff, bygg, engifer, fennel, fenugreek, hnetur, hrísgrjón, hvítlaukur, karrýlauf, kóríander, laukur, Sósur, sesamfræ, svartar baunir, svartur pipar, svört sinnepsfræ, Tófú, túrmerik, Uppáhalds, Uppskriftir, valhnetur, Vegan, , , , , , , , , , ,

Krabbamein

Á hverju ári greinast yfir 12 milljónir manns í heiminum með krabbamein og yfir 7 milljónir deyja vegna sjúkdómsins. Þrátt fyrir þessar ógnvekjandi tölur er krabbamein sjúkdómur sem margir telja að hægt sé að koma í veg fyrir með heilbrigðum lífstíl og réttu mataræði. World Cancer Research Fund hefur fullyrt að þriðja hvert krabbameinstilfelli tengist beint lélegu mataræði og þá yfirleitt skorti á fæðu úr plönturíkinu. Af þessu leiðir að óhollt mataræði er orðið gífurlega alvarlegt vandamál í heiminum og er brýnt að gripið sé inn í með uppfræðslu um nauðsyn holls mataræðis og heilbrigðra lifnaðarhátta. Fjöldi rannsókna sýna fram á mátt vissra fæðutegunda til þess að vinna gegn krabbameinsfrumum í líkamanum og þannig uppbyggingu lífshættulegra meina.

Staðreyndir

Ekkert lyf eða vítamín getur komið í stað heilsusamlegs mataræðis, sem er uppfullt af næringu úr jurtaríkinu, snautt af mettaðri fitu, ríkt af fjölómettuðum omega-3 fitusýrum og þar sem trefjaríkar kornvörur eru kjölfestan í þeim kolvetnum sem borðuð eru.
Tengsl milli krabbameins og bólgu eru mikil og margar tegundir æxla virðast helst myndast í bólguvef. Ýmsir bólgusjúkdómar auka því líkurnar á krabbameini í viðkomandi líffærum.
Mikil neysla á fæðu sem inniheldur óholla fitu, sykur og rautt kjöt samfara skorti á fæðu úr jurtaríkinu veldur bólguhvetjandi ástandi í líkamanum, sem á sama tíma eykur líkurnar á myndun krabbameins.
Omega-3 fitusýrur eru bólguhemjandi á meðan omega-6 fitusýrur eru bólguhvetjandi. Því er mikilvægt að jafnvægi sé milli þessara tveggja fitusýra í líkamanum.
Flestir innbyrða u.þ.b. 25 sinnum meira af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum. Þetta stuðlar að bólguviðbrögðum í líkamanum sem getur aukið líkurnar á krabbameini.
Enginn getur útrýmt hættunni á því að þróa með sér krabbamein. En fólk getur hins vegar minnkað líkurnar talsvert með því að taka ábyrgð á eigin heilsu og gera þær lífstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru.

Hafa samband

Ég heiti Þórunn Steinsdóttir og er lögfræðingur og einnig mikil áhugamanneskja um matargerð, holla lifnaðarhætti og forvarnir gegn krabbameini. Ég eyði miklum tíma í matargerð og að kynna mér mikilvægi heilbrigðs mataræðis sem forvörn gegn krabbameini. Hér mun ég miðla upplýsingum um efnið og uppskriftum sem innihalda fæðutegundir sem vinna gegn krabbameini.
Endilega sendið mér tölvupóst ef upp vakna spurningar um efni síðunnar á matturmatarins@gmail.com.

Sláið inn tölvupóstfang og ýtið á "gerast áskrifandi"

Join 403 other followers

Flokkar

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 403 other followers

%d bloggers like this: