Máttur matarins

Fæða sem forvörn

LKL með anti cancer áherslu

IMG_3455Eftir brauðát síðustu mánaða ákváðum við hjónin að skyggnast aðeins inn í heim LKL lífstílsins. Í „anti cancer“ fræðunum, sem ég hef svo mikinn áhuga á, er lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að lágmarka sykurneyslu sem og neyslu annarra kolvetnisríkra matvæla. Margir fræðimenn á sviðinu telja hreinlega að krabbamein nærist á sykri/kolvetnum. Sykur og önnur kolvetni eru þá sett í mörgum tilvikum undir sama hattinn og talin hafa sömu áhrif á líkamann. Munurinn sem ég tel þó mikilvægt að leggja áherslu á er næringarfræðilegi munurinn, þ.e. að gera greinarmun á t.d. hvítum sykri, hunangi og hlynsírópi. Hvítur sykur er algjörlega næringarsnauður og gerir líkamanum nákvæmlega ekki neitt gott á meðan hágæða hunang og hlynsíróp geta bæði verið afar næringarrík. Hunang inniheldur oft á tíðum mikið magn blómafrævla (bee pollen) sem eru afar næringarríkir og hreint hágæða hlynsíróp er einnig afar næringarríkt. En í ljósi LKL fræðanna er þetta allt nokkurn veginn það saman, eini munurinn er líklega eitthvað aðeins mismunandi magn kolvetna í hverju sætuefninu fyrir sig.

Eftir að hafa horft á myndskeiðið með Eric C. Westman, sem ég birti hér á síðunni um daginn, fór ég talsvert mikið að velta fyrir mér jákvæðum eiginleikum LKL lífstílsins. Ég get þó ekki hugsað mér að vakna á morgnanna og borða egg og beikon eða vefja beikoni í gríð og erg utan um annað hvort fisk, kjúkling eða kjöt sem ég síðan skola niður með bernaise sósu. Það hentar líklega mörgum, en ekki mér. Ég ákvað því að láta reyna á þetta mataræði með „anti cancer“ mataræðið að leiðarljósi, þ.e. borða eins mikið af bólguhamlandi og næringarríkum fæðutegundum og ég get án þess að innbirgða mikið af kolvetnum. Í kvöld eldaði ég piri piri kjúklingasalat sem var stútfullt af litríkum og næringarríkum fæðutegundum með kotasælukremi. Kjúklingurinn var ansi bragðmikill, aðallega vegna þess að 4 ára dóttir mín tók að sér að krydda hann með piri piri kryddinu, en annars var salatið virkilega gott.

Síðan ég byrjaði að skrifa á þessa síðu hef ég rekist á afar fjölbreyttar kenningar um forvarnir gegn krabbameinsmyndun. Ég hef lesið efni sem leggur höfuðáherslu á það að sleppa kjöti, annað sem leggur höfuðáherslu á að sleppa mjólkurafurðum  en oftast er áherslan lögð á að lágmarka sykurneyslu/kolvetnisneyslu og passa upp á að borða rétta fitu, þ.e. bólguhamlandi fitu sem er rík af omega 3 fitusýrum og reyna að sneyða hjá omega 6 fitusýrum, sem teljast bólguhvetjandi. Ég hef sjálf lagt mesta áherslu á það í mínu mataræði.

kotasælukrem

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Krydd: hvítlaukur, cayenne pipar, chili pipar, svartur pipar
Grænmeti: klettasalat, spínat, tómatar, mangó, rauðrófa, paprika, rauðlaukur

Uppskrift

3 kjúklingabringur
1-3 tsk. piri piri krydd
Ólífuolía
Salt

piripiri salat

1 poki klettasalat
1 poki fjallaspínat
1 lítil rauð paprika niðurskorin
½ mangó (má sleppa) niðurskorið
½ rauðlaukur smátt skorinn
1 lárpera niðurskorin
½ box piccalo tómatar
1/3 rauðrófa rifin í mjóar ræmur

Kotasælukrem

1 ½ dl. kotasæla
3 msk. roasted garlic aioli frá stonewall kitchen
3 msk. góð jómfrúrolía
Salt og nýmalaður pipar

Hitið ofninn upp í 180°C. Kryddið kjúklinginn með piri piri kryddinu og bakið í 20-30 mínútur eða þar til kjúklinguirnn er eldaður í gegn.

Blandið öllum innihaldsefnum saman í salatskál (eða raðið upp eins og sést á myndunum). Raðið kjúklingnum yfir og hellið sósu yfir.

Filed under: avokadó, chili, chili pipar, hvítlaukur, Kjúklingur, klettasalat, laukur, Lágkolvetna, mangó, paprika, Salöt, Sósur, svartur pipar, tómatar, , , , , , ,

Þorskhnakkar og meira um hinar ýmsu tegundir mataræðis

Image

Ég fór á Nauthól í síðustu viku og fékk alveg sérstaklega góðan fisk. Ég fæ mér yfirleitt fisk dagsins þar í hádeginu því hann virðist aldrei klikka. Þennan daginn var það þorskur sem var marineraður í chili, soja og sesamolíu og eftir máltíðina varð ég hreinlega að fá nánari innihaldslýsingu á þessari æðislegu marineringu. Það var auðsótt og fékk ég þær upplýsingar að í marineringunni hefði verið chili, soja, sesamolía, tómatmauk, hlynsíróp, hvítlaukur og einhver sérstakur limesafi sem ég þekki ekki. Ég fór að sjálfsögðu heim og gerði mína útgáfu af réttinum góða. Ég notaði lime og chili chutney í staðin fyrir chili en geri ráð fyrir að vel sé hægt að nota ferskan chili eða chilimauk í staðinn og síðan smá limesafa. Ég myndi þó líklega auka aðeins við hlynsírópið í þeirri útgáfu. Read the rest of this entry »

Filed under: chili, chili pipar, Fiskur, gulrætur, hvítlaukur, kartöflur, Kartöflur, sítrus ávextir, spínat, tómatar, Uncategorized, , , , , , ,

Súpuást – gulrótasúpa með engifer og kókos

Þá er hinn merkilegi október mánuður hafinn og grunar mig að margir séu með stór plön fyrir þennan meistaramánuð. Áður en ég byrja að fjalla um fyrirheit þessa mánaðar langar mig að minna fólk á að október mánuður er bleikur mánuður og tileinkaður baráttunni við brjóstakrabbamein. Ég hvet því alla til að kaupa bleiku slaufuna og bera hana sem virðingarvott þennan mánuð. Einnig langar mig að benda fólki á fallega bleika Missoni armbandið sem fæst í Lindex og rennur ágóðinn af sölu þess til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Hvað varðar meistaramánuð þá er þetta fyrsta árið sem ég er meðvituð um þetta frábæra átak. Ég ætla að hugsa sérstaklega vel um heilsuna þennan mánuðinn. En þar sem margir eru líklega að gera stórvægilegri breytingar á sínum lífstíl en ég ætla ég að reyna að leggja mitt af mörkum til að aðstoða aðra við það. Ég hef ekki verið nægilega dugleg að skrifa og birta uppskriftir hér á síðuna síðustu mánuði og tölvan er að fyllast af myndum af hinu og þessu sem ég hef eldað en aldrei haft tíma til að fjalla um. Þessu ætla ég að breyta í október mánuði – ég ætla að koma frá mér þeim uppskrifum sem safnast hafa í haug hjá mér og vonast til að þær komi sér vel fyrir einhvern þarna úti.

Þessi uppskrift gæti nánast ekki verið einfaldari. Það tekur mann í mesta lagi 15 mínútur að koma þessari súpu í pottinn og síðan þarf hún að malla í um klukkustund.

Ég fór á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdal um daginn og keypti þar fullt af dýrindis grænmeti. Gulræturnar voru sérstaklega fallegar og þar sem ég er ein í kotinu þessa dagana ákvað ég að gera eitthvað sem ég get borðað í fleiri en einn dag. Ég er einstaklega mikil súpumanneskja og átti því ekkert erfitt með að borða þessa súpu þrjá daga í röð. Hún fer vel í maga, er stútfull af næringu og hollum kryddum og sérstaklega hreinsandi fyrir líkamann.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: gulrætur, kartöflur, rauðlaukur
Krydd: engifer, karrý (inniheldur ýmsar krabbameinshamlandi kryddtegundir), túrmerik + svartur pipar

Uppskrift

1 rauðlaukur (lítillega afhýddur – ystu lögin innihalda mest af virkum plöntuefnum)
10 gulrætur niðurskornar
2 bökunarkartöflur – lítillega afhýddar (góðu efnin eru í hýðinu)
1-2 msk. engifer
3 bollar vatn (meira ef súpan er of þykk)
1 dós kókosmjólk
2 gerlausir grænmetisteningar (t.d. frá Rapunzel)
1-2 msk. rautt karrý (ég notaði blue dragon)
1 tsk. túrmerik + svartur pipar
1-2 msk. fiskisósa (má líka vera sojasósa/tamari sósa)
salt eftir smekk.

Hitið olíu í potti og steikið allt grænmetið í nokkrar mínútur. Bætið kryddunum út í og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar og bætið þá fiskisósu út í. Hellið vatni út í og grænmetisteningum. Látið malla í 1 klst. Maukið, bætið kókosmjólk út og berið fram.

Filed under: chili pipar, engifer, gulrætur, kartöflur, kóríander, kúmin, laukur, Súpur, svört sinnepsfræ, túrmerik, Uncategorized, Vegan

Tælenska æðið – tveir góðir réttir

Ég virðist vera með æði fyrir tvennu þessa dagana, þ.e. tælenskum mat og hindberjum.  Ég rúlla milli tælensks og indversks æðis og geri ráð fyrir að indverski maturinn fari að detta inn á næstunni þar sem ég var að fá fjórar bækur um indverska matargerð í póstinum rétt í þessu.

Mig langar að deila með ykkur tveimur góðum uppskriftum að tælenskum mat.Sú fyrri er uppskrift sem ég geri mjög reglulega og hef í raun fjallað áður um hér á síðunni. Ég er enn að þróa hana og langar þvi að deila með ykkur nýjustu útgáfunni. Ég er svo yfir mig hrifin af pak choy þessa dagana og tel Garðyrkjustöðina Engi eiga skilið sérstakt hrós fyrir að framleiða þetta stórkostlega ofurfæði. Pak choy er mikið notað í kínverska og tælenska matargerð, sem og aðra asíska matargerð, og er einnig oft kalla bok choy. Pak choy er sérlega ríkt af C vítamíni sem og A og K vítamíni en einnig mjög ríkt af kalki, kalíumi og magnesíumi. Það er einnig talið hafa eiginleika til að vinna gegn myndun og vexti krabbameins (sjá til dæmi hér og hér). Ég tók stuttan netrúnt og fann ýmislegt í þá áttina. Endilega kíkið á:

Umfjöllun Dr. Oz um 5 krabbameinshamlandi fæðutegundir, m.a. Pak choy.

Umfjöllun á heimasíðu Lance Armstrong um pak choy

Ég býst við að pak choy fáist í flestum heilsubúðum. Ég keypti það í Melabúðinni – þar er alltaf gott úrval. Ég notaði pak choy í  báðar uppskriftirnar. Hér kemur fyrri uppskriftin. Byrjum samt á einni mynd af pok choy, íslenskri papriku og tælensku basil sem allt fóru í réttinn.

Ég er nýbyrjuð að nota tælenskt basil. Það er allt öðruvísi en hin hefðbundna basilika sem við setjum á caprese salatið með mozarella ostinum og tómötunum. Þessi lyktar eins og lakkrís og minnir því óneitanlega á fennel og anís. Ég þorði nú ekki að setja mikið en mun án efa þróast í þessu með tímanum.

Næst var það engifer og hvítlaukur, já og nóg af báðu. Í uppskriftinni eru 3 msk. af sökuðu fersku engiferi og 2 msk. saxaður hvítlaukur. Ég fæ að sjálfsögðu ekki nóg af því að tala um jákvæða eiginleika bæði hvítlauks og engifers en ég geri þó ráð fyrir að flestum lesendum síðunnar sé orðið nokkuð ljóst að hér eru ofurkrydd á ferð. Fyrsta innleggið á facebook veggnum mínum var um engifer núna þegar ég opnaði tölvuna og ætla ég því að láta það duga sem innlegg í hvítlauks- engiferumræðuna þessu sinni. Kíkið á umfjöllunina hér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Grænmeti: pak choy, paprika
Krydd: 
hvítlaukur, engifer, chili, túrmerik, rautt karrý
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað með eldhúspappír og skorið í bita
1-2 msk. hágæða olía til steikingar (t.d. repjuolía frá Rapunzel)
1/2 poki pak choy frá Engi
1 stór græn paprika niður skorin
1 stór rauður chili pipar smátt saxaður
3 msk. saxað ferskt engifer
2 msk. saxaður hvítlaukur
1 tsk. túrmerik + svartur pipar
2-3 msk. rautt karrýmauk
1 dós kókosmjólk
2 msk. fiskisósa
4 lime lauf (fást þurrkuð úr sömu línu og tælenska basilið á myndinni hér að ofan)
1 msk. hunang
1/4-1/2 tsk. tælenskt basil

Byrjið á því að hita olíuna og steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Gætið þess að vera búin að þerra tófúið vel áður en byrjað er að steikja – annað gerir steikinguna erfiða. Takið tófúið af pönnunni og bætið hvítlauk, engiferi, papriku og chili á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því næst rauðu karrýi, túrmeriki og svörtum pipar og steikið áfram í tæpa mínútu. Hellið þá kókosmjólk og fiskisósu saman við og hrærið vel. Bætið lime laufum, pak choy og hunangi saman við og látið malla í 5-7 mínútur. Bætið tófúinu saman við sem og basili. Saltið örlítið eftir smekk og berið fram með hrísgrjónum.

Og síðan er komið að seinni uppskriftinni. Hún var ekki verri. Ég notaði líka tófú í hana en að sjálfsögðu er hægt að nota kjúkling eða bara grænmeti ef ykkur hugnast það frekar. Ég notaði aftur pak choy en auk þess hnúðkál. Ég held að minnsta kosti að það sé íslenska þýðingin. Þetta kallast romanesco á ensku og er notað í eina af mínum uppáhalds uppskriftum á 101cookbooks heimasíðunni sem ég er svo hrifin af (sjá uppskriftina hér). Ég get ekki talið öll skiptin sem við gerðum þessa uppskrift í Vancouver. En aftur að efninu. Það sem er einnig sérstakt við þessa uppskrift er að ég notaði ferska shitake sveppi í hana. Þá fékk ég, eins og pok choy, í yndislegu Melabúðinni. Hér kemur mynd af þessum flottu sveppum sem ég nældi mér í.

Shitake sveppir eru taldir hafa einstakan lækningamátt. Bandaríska krabbameinstofnunin fjallar um krabbameinshamlandi áhrif shitakesveppsins á mjög athyglisverðan hátt þar sem fram kemur að shitake sveppurinn styrki ónæmiskerfi líkamans og þannig vinni gegn myndun krabbameins. Sjá nánar um þetta hér. En nú held ég að ég sé að setja lengdarmet og ætla því að koma uppskriftinni frá mér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: pak choy, hnúðkál, laukur
Sveppir: shitake sveppir
Krydd: 
hvítlaukur, chili
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað og skorið í bita
sesamolía til steikingar
1 blaðlaukur skorinn í mjóar ræmur
1 haus hnúðkál/romanesco skorinn í bita
1 pakki shitakesveppir – 150 gr.
2 msk. soja sósa
(ég átti ekki til gulrætur en mun án efa setja þær með næst)

Hnetusósan
1 msk. sesamolía
2 hvítlauksrif smátt söxuð
1-2 rauðir chili fræhreinsaðir og saxaðir
3/4 bolli jarðhnetur
2/3 bolli kókosmjólk
2 msk. hoisin sósa
1 msk. soja sósa
1 msk. hunang

Gott er að byrja á því að gera hnetusósuna og láta hana standa á meðan allt annað er gert ready. Hitið olíuna og steikið hvítlauk og chili þar til það er farið að brúnast. Bætið þá hnetunum saman við og látið þær krauma í 2-3 mínútur á pönnunni. Bætið síðan afgangnum af innihaldsefnunum saman við og látið malla í nokkrar mínútur – eða þar til sósan er orðin þykk og girnileg.

Næst er að steikja tófúið. Steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Tófústeikingarsérfræðingurinn á mínu heimili tók þetta að sér og það leit svona út eftir steikingu – frekar flott hjá honum.

Eins og sést á myndinni er tófúið steikt og því næst tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Næst er að steikja grænmetið. Notið áfram sesamolíu til steikingar og byrjið á að steikja hnúðkálið og sveppina, síðan blaðlaukinn og pak choy-ið. Hellið því næst sojasósunni yfir. Bætið tófúinu á pönnuna og blandið saman við. Hellið hnetusósunni yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!

Filed under: basil, chili, chili pipar, engifer, hnúðkál, hnetur, hvítlaukur, laukur, paprika, Sósur, sojabaunir, svartur pipar, Sveppir, Tófú, túrmerik, Uppáhalds, Vegan, , , , , , , , , ,

Núðlusúpa með kjúklingi, karrý og kókos

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni er ég sérstaklega hrifin af súpum. Þegar við bjuggum í Vancouver fannst okkur sérstaklega gaman að fá okkur ramen súpur en auk þeirra hef ég gert ýmsar útfærslur af öðrum núðlusúpum. Þessi fellur líklega í indverska flokkinn þrátt fyrir að sítrónugrasið geri hana nokkuð tælenska líka.

Mér finnst sítrónugras gefa mjög skemmtilegt bragð. Í mínum huga gefur það sítrónukeim sem er þó aðeins mildari og sætari en safi úr venjulegri sítrónu. Sítrónugras er mikið notað bæði í S-Ameríku og í Tælandi og Víetnam. Sítrónugras er talið hafa róandi áhrif á fólk, aðstoða við svefn og auka blóðflæði í líkamanum. Einnig á sítrónugras að mýkja særindi í hálsi, lækka hita og hafa góð áhrif á sykursýki 2 Ástæðan fyrir þessari miklu virkni sítrónugrassins er talin sú að það inniheldur olíu sem hefur andoxunaráhrif og kallast citral. Þetta efni er talið bólguhamlandi, bakteríudrepandi og vinna gegn sveppum [heimild bls. 153]. Rannsóknir sýna einnig að þetta efni getur haft hamlandi áhrif á vöxt og myndun krabbameins [heimild og heimild].

Þessi súpa er virkilega næringarrík og inniheldur mikið af kröftugum kryddum sem hafa góð áhrif á heilsuna. Ég notaði eggjanúðlur í þetta skiptið, einungis vegna þess að ég átti þær til. Ég myndi hins vegar mæla sérstaklega með udon núðlum í svona súpu. Udon núðlur eru japanskar hrísgrjónanúðlur sem henta mjög vel í súpur. Þær eru glútenlausar og fara því vel í maga og flestir ættu að þola þær vel. Á síðastliðnum mánuðum hef ég rekist mjög mikið á umfjallanir um glúten og mikilvægi þess að lágmarka neyslu þess. Ég hef því ákveðið að leggja mig meira fram um að minnka glútenneyslu mína. Næst mun ég því gera þessa súpu með udon núðlum eða soba núðlum.

Uppskrift
fyrir 4

Eggjanúðlur eða udon núðlur
4 kjúklingabringur niðurskorinn í litla bita
1 msk. saxað engifer
1 rauðlaukur
2 hvítlauksgeirar
3 stilkar af sítrónugrasi
1 msk. olía
1,2 lítrar grænmetissoð (notaði rapunzel teninga)
1 dós kókosmjólk
1 tsk. þurrkaður eða saxaður ferskur chili
1 msk. fiskisósa
2-3 msk. sojasósa
1 msk. hunang
1 msk. balti karrý eða annað madras karrýmauk
1 tsk. salt.
1 bakki baunaspírur
safi úr 1 líme
ferskt kóríander yfir – má sleppa

Sjóðið núðlurnar í potti og látið svo renna kalt vatn yfir þær svo þær haldi ekki áfram að eldast þegar búið er að hella vatninu af þeim.

Hitið olíu í potti og steikið lauk og hvítlauk. Blandið engiferi, sítrónugrasi, og karrýi+svörtum pipar saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur. Hellið soðinu saman við og látið sjóða í 15-20 mínútur. Bætið þá kjúklingi, kókosmjólk, chili, fiskisósu, sojasósu, hunangi og lime saman við og sjóðið áfram í 10 mínútur. Blandið fersku kóríander saman við.

Setjið núðlur í skál, hellið súpunni yfir. Skreytið með baunaspírum og fersku kóríander. Berið fram.

Filed under: chili, chili pipar, engifer, hvítlaukur, Karrý, laukur, sítrus ávextir, Súpur, svartur pipar, Uppskriftir

Kartöflusúpa með balti karrý

Ég er alveg sérstaklega hrifin af kartöflum, hvort sem það eru venjulegar kartöflur eða sætar. Ég næ þó yfirleitt að halda mig frá frönsku kartöflunum, enda algjör óþarfi að drekkja kartöflum í óhollri rjúkandi olíu til að gera þær góðar. En í þetta skiptið gerði ég kartöflusúpu. Þó svo að veðrið sé búið að vera einstaklega gott síðustu daga þá er voða gott að fá heita og saðsama súpu þegar farið er að dimma svona mikið. Ég hef haft lítinn tíma uppá síðkastið til að elda og dúlla mér í eldhúsinu svo að súpa eins og þessi var alveg kjörin, ótrúlega fljótlega og einföld. Ég notaði karrý mauk sem ég keypti í Lifandi markaði og heitir Organic Balti Curry Paste og er indverskt karrýmauk. Þar reyndist mjög gott og mæli ég því sérstaklega með því.

Ég skoða alltaf samsetningu kryddanna í því karrý sem ég kaupi. Mig langar að lista upp samsetninguna í þessari tegund til þess að varpa ljósi á hve margar krabbameinshamlandi tegundir er að finna í henni. Þetta eru öll efnin sem finnast í maukinu:

  • Tómatmauk – inniheldur mikið magn af lycopene sem er eitt öflugasta og mest rannsakaða krabbameinshamlandi efnið sem finnst í plöntum. Lycopene gefur tómötum rauða litinn og magn þess er margfalt meira í unnum og elduðum tómatvörum en í hráum tómötum.
  • Hvítlauksmauk – inniheldur diallyldisulfide sem hamlar vexti og útbreiðslu margra tegunda krabbameins, m.a. brjósta- og ristilkrabbameins, og ýtir undir frumudauða (e. apoptosis). [heimild] Virkni hvítlauks eykst við það að leyfa honum að anda áður en hann er notaður í matargerð, þannig að ráðlagt er að merja hvítlaukinn og láta hann standa í 2-3 mínútur áður en hann er notaður í matargerð.
  • Engifermauk – inniheldur efnið gingerol sem hefur andoxandi áhrif, er bólguhamlandi og hindrar framleiðslu á cox-2, sem er aðalensímið sem krabbameinsfrumur nota til að mynda bólgur [heimild: Bragð í baráttunni bls. 88 og hér].
  • Túrmerik – Mjög öflugt og mikið rannsakað krabbameinshamlandi efni sem yfir 3000 birtar rannsóknir sýna fram á virkni þess til að vinna gegn bólgum og vexti og myndun krabbameins [heimild]
  • Garam masala – inniheldur kóríander, kanil, engifer og negul – allt krabbameinshamlandi kryddtegundir
  • Chili, cumin, túrmerik, kóríander negul og kanil – allt krabbameinshamlandi kryddtegundir. Sjá nánar hér sem og undir greinar.
  • Auk þess: sólblómaolíu og hvítvínsedik

En aftur yfir í kartöfluumræðuna. Kartöflur eru ein þeirra fæðutegunda sem rannsóknir sýna að hafi krabbameinshamlandi áhrif. Raunar eru það ekki kartöflurnar sjálfar, heldur hýðið sem hefur krabbameinshamlandi áhrif. Svo ég hvet alla til að borða hýðið af kartöflunum. Í súpu eins og þessari er ekkert mál að hafa hýðið með. Þegar súpan er maukuð í lokinn maukast hýðið með og maður tekur ekkert eftir því. Í bókinni Bragð í baráttunni er fjallað um krabbameinshamlandi áhrif kartöfluhýðis og þar segir eftirfarandi:

,,Allur matur úr jurtaríkinu er mjög mikilvægur í krabbameinsforvörnum og án vafa eitt beittasta vopnið gegn öllum tegundum krabbameins, sérstaklega í meltingarfærum. Sumar jurtir geta jafnvel komið okkur á óvart! Til dæmis hin hógværa kartafla, sér í lagi mjölvamiklar tegundir. Henni er oft raðað í flokk með fæðu sem hefur ekki mikið næringargildi en miklu síður litið á hana sem mikilvæga krabbameinsforvörn! Við könnuðum samt möguleika hennar á að hafa áhrif á vöxt einangraðra magakrabbameinsfrumna. Þó svo að kartaflan sjálf hafi ekki sýnt nein krabbameinshamlandi áhrif tókum við eftir því að kartöfluhýðið reyndist hafa öflug, hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna (mynd 15 [sjá bls. 53 í bókinni]. Þessi óvænta niðurstaða sýnir hversu krabbameinshamlandi sameindir eru sterkur eðlisþáttur fæðu úr jurtaríkinu og mikilvægi þess að neyta sem allra flestra tegunda fæðu úr þessum flokki til að koma í veg fyrir krabbamein.“

Þetta er ótrúlega merkilegt. Kartöfluhýðið inniheldur sem sagt mikið af krabbameinshamlandi efnum og myndin sem birtist með þessum texta sýnir þetta á skýran hátt. Merkilegt!

En áður en ég fer í uppskriftina langar mig að benda öllum á sérblað um umhverfismál og umhverfisvænar vörur í Fréttablaðinu í dag. Fullt af góðum upplýsingum um mikilvægt málefni.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: mangó
Grænmeti: kartöflur, púrrulaukur
Krydd: engifer, hvítlaukur, chili, túrmerik, cumin, kóríander, negull, kanill, steinselja
Annað: jógúrt

Uppskrift
fyrir 4

2 msk. repjuolía eða ólífuolía
6 stórar kartöflur niðurskornar með hýðinu
1 lítri vatn
2 msk. balti curry paste
1 tsk. herbamare original
¼ tsk. túrmerik + svartur pipar
½ púrrulaukur niðurskorin
3 hvítlauksrif niðurskorin
1 lítri af vatni
1 dós kókosmjólk
1 grænmetisteningur
2 msk. sætt mangó chutney
steinselja smátt söxuð (má líka vera ferskt kóríander)
Sýrður rjómi (má sleppa)

Skerið púrrulauk og hvítlauk niður og látið anda í nokkrar mínútur.  Hitið olíuna í potti og steikið laukinn í nokkrar mínútur við vægan hita. Bætið karrý mauki, túrmeriki og svörtum pipar saman við og haldið áfram að steikja í 1-2 mínútur. Bætið kartöflum saman við, vatni og kókosmjólk og látið suðuna koma upp. Bætið herbamare og grænmetisteningi saman við og látið sjóða í 30-40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mauksoðnar. Maukið súpuna með töfrasprota. Bætið mangó chutney og steinselju saman við og berið fram. Dropið smá sýrðum rjóma yfir eftir smekk.

Filed under: chili, chili pipar, engifer, Greinar, hvítlaukur, kanill, kartöflur, kóríander, kúmin, laukur, negulnaglar, Rannsóknir, Súpur, steinselja, svartur pipar, Tímarit, túrmerik, Umhverfismál, Uncategorized, Uppáhalds, Uppskriftir, Vegan, , , , , , , , ,

Ofnbakaðar kartöflur með tandoori kryddi

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: 
kartöflur
Krydd: chili, tandoori kryddblanda (kóríander, laukkrydd, fenugreek, svartur pipar, hvítlaukur, kanill, kumin, engifer, negull, múskat, karidommur)

Uppskrift
fyrir 4 

1 stór sæt kartafla niðurskorin í litla bita
3 bökunarkartöflur niðurskornar í litla bita
1 tsk. chili flögur (má sleppa)
2-3 tsk. tandoori kryddblanda
maldon salt eftir smekk
3-4 msk. góð ólífuolía/repjuolía/sesamolía (frá Rapunzel)

Hitið ofninn í 180°C.

Blandið öllu saman í eldföstu móti og bakið í 45-50 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar bakaðar í gegn.

Filed under: chili pipar, fenugreek, kanill, kardimommur, kartöflur, Kartöflur, kóríander, kúmin, Meðlæti, negulnaglar, svartur pipar, Vegan

Grænt salat með krydduðum valhnetum, trönuberjum og mozarella osti

Í þessu salati eru krydduðu valhneturnar aðal málið. Þó svo að allt þetta græna og góða sé virkilega hollt eru það valhneturnar sem setja puntinn yfir i-ið hvað hollustu og virkni varðar. Valhnetur eru sérstaklega ríkar af omega-3 fitusýrum og eru líklega einhverjar þær hollustu hnetur sem maður fær. Hér eru valhneturnar kryddaðar með hollum indverskum kryddum eins og túrmeriki sem er ein virkasta kryddjurtin sem vinnur gegn krabbameini. Eins og ég hef áður fjallað um þá er mikilvægt að túrmeriki sé blandað saman við smá olíu og svartan pipar, það eykur áhrif þess margfalt. Trönuberin bæta svo örlítið sætu við salatið og osturinn mýkir það og bætir fyllingu við það. Það er líka örugglega mjög gott að setja mjúkan geitaost í staðin fyrir mozarella ostinn. Ég ætla að gera það næst. Endilega prófið þetta salat, það hentar mjög vel með fiski og kjúklingi.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir
: trönuber
Grænmeti: klettasalat, laukur
Krydd: túrmerik, cumin, kóríander
Hnetur: valhnetur

 

Uppskrift
fyrir 4 

Salat
1 poki klettasalatsblanda
1/3 agúrka niðurskorin
½ smátt saxaður rauðlaukur
1 bolli niðurskorinn ferskur mozarella ostur
½ bolli þurrkuð trönuber
1-2 msk. sítrónuolía eftir smekk

Kryddaðar valhnetur
1 bolli valhnetur
1 tsk. cumin duft
1 tsk. kóríander duft
¼ tsk. cayenne pipar
½ tsk. túrmerik
1 tsk. ólífuolía
¼ tsk. salt
nýmalaður svartur pipar
2 msk. akasíu hunang

Blandið klettasalatsblöndu, lauk, agúrku, trönuberjum, mozarella osti og sítrónuolíu saman í skál og leggið til hliðar.

Blandið kryddunum saman í skál. Hitið pönnu og ristið valhneturnar á heitri pönnu í nokkrar mínutur. Passið að þær brenni ekki. Takið pönnuna af og blandið kryddunum vel saman við. Bætið örlítilli ólífuolíu á pönnuna til að virkja túrmerikið. Hellið síðan hunanginu yfir og setjið pönnuna aftur á helluna og látið hitna vel í rúmlega mínútu. Takið af pönnunni og látið kólna.

Blandið hnetunum saman við salatið og berið fram.

Filed under: chili pipar, kóríander, kúmin, klettasalat, laukur, Salöt, svartur pipar, túrmerik, trönuber, valhnetur

10 árum yngri á 10 vikum og 4 smoothie-uppskriftir

Um helgina las ég nýju bókina hennar Þorbjargar Hafsteinsdóttur sem allt virðist ganga út á þessa dagana. Þetta er falleg bók, flott uppsett og mjög gott innlegg í það fátæklega úrval bóka sem fjalla um heilsutengd málefni á íslensku. Það má hins vegar í raun segja að ég hafi eiginlega spænt bókina í mig, hún er alveg ofboðslega fljótlesin og talsvert mikið um endurtekningar. Meginþemað í lífstíl Þorbjargar er svipað og hjá mörgum þeim aðilum sem ég les eftir í sambandi við krabbameinsforvarnir, þ.e. fæða sem er laus við sykur og hvítt hveiti. Þorbjörg leggur einnig mikla áherslu á holla fitu og próteinríkan mat. Þetta fellur vel að Life Over Cancer prógramminu sem ég fjallaði um fyrir nokkrum vikum og þá sérstaklega fyrir aðila sem eru vannærðir og eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð eða að byggja sig upp eftir slíka meðferð. Til að gera langa sögu stutta þá má eiginlega segja að ég mæli með bókinni fyrir alla þá sem vilja breyta um lífstíl og taka róttækt skref í átt að heilbrigðara líferni. Fyrir lengra komna er bókin að sjálfsögðu líka fín, en mér fannst kannski á einstaka stað vanta dýpri umræðu, en þó er eitthvað um tilvísanir í heimildir og svo er ágætur listi aftast í bókinni yfir bækur og fleira sem hún mælir með.

En í hvert skipti sem maður les bók eins og þessa þá bæði lærir maður eitthvað nýtt og tekur örlítið nýja stefnu, þó svo að stundum sé það aðeins tímabundið. Hjá mér var það hörfræjaolían sem ég ákvað að bæta inn hjá mér. Ég hef alltaf verið mikill talsmaður omega-3 ríkrar fæðu en yfirleitt notað fræin frekar en olíurnar. Ég nota chia fræ, hamp fræ og hörfræ mikið í smoothie-ana mína og mæli klárlega með því. En eftir að lesa bókina ákvað ég að byrja að nota hörfræjaolíuna líka í smoothie-ana. Þorbjörg leggur einnig mikla áherslu á próteinríka fæðu þannig að ég hef verið að passa að setja hamp duftið út í smoothieana líka. Ég er hrifnari af hamp prótíni heldur en mysupróteininu og nota það þess vegna. Hamp fæ ég aldrei nóg af því að tala vel um. Vonandi fara flysjuðu hamp fræin bara að fást á Íslandi.

Mig langar að enda umræðuna um bókina 10 árum yngri á 10 vikum á því að nefna að bókin inniheldur talsvert mikinn fróðleik um hórmónajafnvægi kvenna og sérstök vandamál tengd bæði óreglulegum blæðingum og breytingaskeiðinu. Þar leggur Þorbjörg mikla áherslu á neyslu hollrar fitu og það hve mikilvægt er að sniðganga sykurinn og hveitið. Þessa upplýsingar tel ég að geti hjálpað mörgum konum að vinna gegn bæði andlegum sem líkamlegum kvillum sem tengjast hórmónaójafnvægi í líkamanum.

Ég hef núna í tvo daga verið að búa mér til smoothie-a tvisvar á dag og ég held að prótínið og fitan í hörfræjaolíunni sé að verða til þess að ég helst södd lengur en áður. Ég verð vel södd og líður vel eftir að drekka þá. Hér koma uppskriftir að smoothie-unum sem ég hef drukkið síðastliðna tvo daga. En fyrst ein falleg mynd sem tekin var á toppi Snæfellsjökuls um helgina.

Uppskriftirnar inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir
: jarðaber, banani, límóna, hindber, döðlur, brómber, rifsber, acai ber
Krydd:
 cayenne pipar
Hnetur og fræ: 
hemp fræ, hörfræ,

Mettandi morgunsmoothie
fyrir 1-2

1 banani
1 bolli sojamjólk frá Provamel
1 tsk. bee pollen
1 ½ msk. hemp duft
1 ½ tsk. hörfræ
hindber (tæplega 1 bolli)
1 msk. hörfræolía
klakar

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Súkkulaðiparadís
fyrir 1-2

¾ bolli sojamjólk (frá Provamel)
½ bolli vatn
2 ½ tsk. lecitin granules
1 msk. hamp duft
½ tsk. acai duft
2 tsk. hrátt kakó
5 ferskar döðlur
1 stór frosinn banani
1 msk. hörfræjaolía

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Dúllusmoothie
fyrir 1-2

1 bolli sojamjólk
1 banani
1 msk. bee pollen
1 msk. hamp duft
1 msk. hörfræ
1 msk. hörfræolía
1 bolli frosin jarðaber
safi úr ½ límónu
cayenne pipar á hnífsoddi
smá klakar

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Skógarberjasmoothie
fyrir 1-2

¾ bolli sojamjólk frá Provamel
½ bolli vatn
1 msk. hamp duft
1 msk. lecithin granules
1 banani
1 bolli skógarberjablanda
klakar
1 msk. hörfræolía

Allt sett í blender og drukkið með bros á vör. Gott er að setja hörfræjaolíuna út í þegar allt hefur blandast vel saman og blanda henni saman við í örstutta stund.

Njótið!

Filed under: acai ber, bananar, Bækur, brómber, chili pipar, döðlur, hörfræ, hemp fræ, hindber, jarðaber, Morgunmatur, sítrus ávextir, sojabaunir, Uppáhalds, Vegan,

Gleðismoothie

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: avókadó, jarðaber, banani, límóna
Krydd:
 cayenne pipar
Hnetur og fræ: hemp fræ

Uppskrift
fyrir 2

1 avókadó
2 bollar hemp mjólk (1 msk. flysjuð hemp fræ og 2 bollar vatn)
1 lítill banani
1 bolli frosin jarðaber
safi úr einni límónu
1-2 msk. agave síróp, eftir smekk
1/8 tsk. cayenne pipar
örlítið himalaya salt

Allt sett í blandara og drukkið með bros á vör.

Filed under: avokadó, bananar, chili pipar, hemp fræ, jarðaber, Morgunmatur, sítrus ávextir, Uppáhalds, Uppskriftir, Vegan

Krabbamein

Á hverju ári greinast yfir 12 milljónir manns í heiminum með krabbamein og yfir 7 milljónir deyja vegna sjúkdómsins. Þrátt fyrir þessar ógnvekjandi tölur er krabbamein sjúkdómur sem margir telja að hægt sé að koma í veg fyrir með heilbrigðum lífstíl og réttu mataræði. World Cancer Research Fund hefur fullyrt að þriðja hvert krabbameinstilfelli tengist beint lélegu mataræði og þá yfirleitt skorti á fæðu úr plönturíkinu. Af þessu leiðir að óhollt mataræði er orðið gífurlega alvarlegt vandamál í heiminum og er brýnt að gripið sé inn í með uppfræðslu um nauðsyn holls mataræðis og heilbrigðra lifnaðarhátta. Fjöldi rannsókna sýna fram á mátt vissra fæðutegunda til þess að vinna gegn krabbameinsfrumum í líkamanum og þannig uppbyggingu lífshættulegra meina.

Staðreyndir

Ekkert lyf eða vítamín getur komið í stað heilsusamlegs mataræðis, sem er uppfullt af næringu úr jurtaríkinu, snautt af mettaðri fitu, ríkt af fjölómettuðum omega-3 fitusýrum og þar sem trefjaríkar kornvörur eru kjölfestan í þeim kolvetnum sem borðuð eru.
Tengsl milli krabbameins og bólgu eru mikil og margar tegundir æxla virðast helst myndast í bólguvef. Ýmsir bólgusjúkdómar auka því líkurnar á krabbameini í viðkomandi líffærum.
Mikil neysla á fæðu sem inniheldur óholla fitu, sykur og rautt kjöt samfara skorti á fæðu úr jurtaríkinu veldur bólguhvetjandi ástandi í líkamanum, sem á sama tíma eykur líkurnar á myndun krabbameins.
Omega-3 fitusýrur eru bólguhemjandi á meðan omega-6 fitusýrur eru bólguhvetjandi. Því er mikilvægt að jafnvægi sé milli þessara tveggja fitusýra í líkamanum.
Flestir innbyrða u.þ.b. 25 sinnum meira af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum. Þetta stuðlar að bólguviðbrögðum í líkamanum sem getur aukið líkurnar á krabbameini.
Enginn getur útrýmt hættunni á því að þróa með sér krabbamein. En fólk getur hins vegar minnkað líkurnar talsvert með því að taka ábyrgð á eigin heilsu og gera þær lífstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru.

Hafa samband

Ég heiti Þórunn Steinsdóttir og er lögfræðingur og einnig mikil áhugamanneskja um matargerð, holla lifnaðarhætti og forvarnir gegn krabbameini. Ég eyði miklum tíma í matargerð og að kynna mér mikilvægi heilbrigðs mataræðis sem forvörn gegn krabbameini. Hér mun ég miðla upplýsingum um efnið og uppskriftum sem innihalda fæðutegundir sem vinna gegn krabbameini.
Endilega sendið mér tölvupóst ef upp vakna spurningar um efni síðunnar á matturmatarins@gmail.com.

Sláið inn tölvupóstfang og ýtið á "gerast áskrifandi"

Join 403 other followers

Flokkar

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 403 other followers

%d bloggers like this: