Máttur matarins

Fæða sem forvörn

Bleikjusalat

Image

Af því maður nennir auðvitað aldrei að gera það sem maður á að vera gera þá ákvað ég núna, á meðan ungabarnið mitt sefur og ég á að vera að skrifa mastersritgerðina mína, að endurvekja þessa ágætu síðu mína. Þó svo að ég hafi ekki skrifað mikið síðustu misserin þá hætti ég aldrei að elda og hugsa um heilsuna. Ég verð þó að viðurkenna að einhverra hluta vegna þótti mér miklu auðveldara að hugsa grænt, hreint og rétt í Vancouver en hérna heima. Þegar ég flutti heim var ég staðráðin í því að hætta nánast alveg að borða kjöt, flokka ruslið mitt og hjóla nánast allt sem ég færi. Þannig er stemmningin í Vancouver. Þetta hefur ekki alveg gengið eftir. En fullt gerir maður þó rétt og salatið sem ég gerði í gærkvöldi er klárlega grænt, hreint og rétt. Ég get þó alls ekki stolið heiðrinum af þessu salati því hugmyndin er stolin frá einni sérlega laginni vinkonu minni.

En smá fróðleikur. Ég byrjaði að lesa nýju bókina eftir T. Colin Cambell, sem skrifaði The China Study. Bókin heitir Whole og kindle-inn minn segir mér að ég sé búin að lesa 4% af bókinni þannig að það er ótímabært að vera með fullyrðingar hér en mér sýnist þó allt stefna í svipaðan áróðursstíl og The China Study er skrifuð í. Ég vona þó að ég nái að detta inn í hana og geti miðlað einhverju áhugaverðu til ykkar. Á þessum 4% fannst mér mjög áhugavert að lesa að Bandaríkin eyða meiri fjármunum í heilbrigðisþjónustu en nokkuð annað land í heiminum en þegar heilbrigði Bandaríkjamanna er metið eru þeir afar neðarlega á blaði. Stór hluti þessa kostnaðar fer í lyfseðilskyld lyf en þar í landi eru aukaverkanir af lyfjanotkun þriðja algengasta orsök dauðsfalla og þá eru ofskammtanir ekki teknar með. Mig grunar að Ísland standi ekki sérlega fjarri Bandaríkjunum í þessum málum og því afar mikilvægt að efla umræðu um forvarnir gegn sjúkdómum og þær aðferðir sem við getum beitt til að koma í veg fyrir lyfjanotkun. Ég stend í þeirri meiningu að mataræði okkar eigi stóran þátt í að minnka líkurnar á að við þróum með okkur sjúkdóma og benda rannsóknir í síauknu mæli til þess einnig. Bleikjusalatið passar vel inn í þá umræðu.

bleikjusalat

Hér sjáið þið bleikjusalatið góða. Ég ætla mér ekki að setja inn nákvæma uppskrift en salatið er mjög einfalt. Ég notaði tvö flök af klaustursbleikju og kryddaði þau með salti og pipar og steikti á pönnu með repjuolíu. Bleikjan var svo skorin niður í bita og dreift yfir salatið.

Í salatið notaði ég síðan klettasalatið góða frá Hveratúni, sem mér þykir langsamlega besta klettasalatið. Einnig notaði ég rauðlauk, kirsuberjatómata, lárperu, mangó og papriku (sem mér fannst þó óþörf). Auk þess ristaði ég bæði nokkurra daga gamalt súrdeigsbrauð og kasjúahnetur.

Það er ótrúlega einfalt að búa til brauðteninga úr nokkurra daga gömlu brauði og mér finnst sérstaklega gott að nota súrdeigsbrauðið. Heimalagaðir brauðteningar eru frábærir út á salat og súpur. Ég reif niður þrjár sneiðar af brauðinu í litla bita, velti því upp úr 1-2 msk. af góðri ólífuolíu og kryddaði með  smá salti og örlítið af cajun kryddblöndu sem ég er sérstaklega hrifin af (sjá mynd). Á sama tíma ristaði ég kasjúahneturnar og notaði  þá maple síróp í staðinn fyrir olíu og síðan sömu kryddin. Ég ristaði þetta síðan í ofni við 180°C í um 10 mínútur.

Dressingin sem ég notaði yfir salatið var blanda af maple sírópi, balsamik ediki, jómfrúr ólífuolíu og dijon sinnepi. Hlutföllin eru smekksatriði og skemmtilegt að fikra sig áfram með. Ég geri þessa dressingu einnig oft með grófa sinnepinu frá Himneskt. Fullorðna fólkið á heimilinu er sérstaklega hrifið af þessu sinnepi og hér er líklega borðuð um það bil ein krukka á viku. Þetta sinnep, eins og mörg önnur, inniheldur túrmerik sem er líklega eitt öflugasta kryddið sem vinnur gegn krabbameini. Eins og ég hef sagt áður er mikilvægt að því sé blandað saman við olíu og svartan pipar til að hámarka virkni þess. Í sinnepi er yfirleitt alltaf olía og því gott að bæta smá svörtum pipar saman við þegar maður notar sinnepið. Hér er einnig áhugaverð grein um mikilvægi þess að borða sinnep eða piparrót með spergilkáli til að auka krabbameinshamlandi áhrif þess.

Filed under: avokadó, Fiskur, kasjúahnetur, klettasalat, laukur, mangó, paprika, rauðkál, Salöt, sinnep, svartur pipar, svört sinnepsfræ, tómatar, túrmerik, Uppáhalds, Vegan

Súpuást – gulrótasúpa með engifer og kókos

Þá er hinn merkilegi október mánuður hafinn og grunar mig að margir séu með stór plön fyrir þennan meistaramánuð. Áður en ég byrja að fjalla um fyrirheit þessa mánaðar langar mig að minna fólk á að október mánuður er bleikur mánuður og tileinkaður baráttunni við brjóstakrabbamein. Ég hvet því alla til að kaupa bleiku slaufuna og bera hana sem virðingarvott þennan mánuð. Einnig langar mig að benda fólki á fallega bleika Missoni armbandið sem fæst í Lindex og rennur ágóðinn af sölu þess til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Hvað varðar meistaramánuð þá er þetta fyrsta árið sem ég er meðvituð um þetta frábæra átak. Ég ætla að hugsa sérstaklega vel um heilsuna þennan mánuðinn. En þar sem margir eru líklega að gera stórvægilegri breytingar á sínum lífstíl en ég ætla ég að reyna að leggja mitt af mörkum til að aðstoða aðra við það. Ég hef ekki verið nægilega dugleg að skrifa og birta uppskriftir hér á síðuna síðustu mánuði og tölvan er að fyllast af myndum af hinu og þessu sem ég hef eldað en aldrei haft tíma til að fjalla um. Þessu ætla ég að breyta í október mánuði – ég ætla að koma frá mér þeim uppskrifum sem safnast hafa í haug hjá mér og vonast til að þær komi sér vel fyrir einhvern þarna úti.

Þessi uppskrift gæti nánast ekki verið einfaldari. Það tekur mann í mesta lagi 15 mínútur að koma þessari súpu í pottinn og síðan þarf hún að malla í um klukkustund.

Ég fór á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdal um daginn og keypti þar fullt af dýrindis grænmeti. Gulræturnar voru sérstaklega fallegar og þar sem ég er ein í kotinu þessa dagana ákvað ég að gera eitthvað sem ég get borðað í fleiri en einn dag. Ég er einstaklega mikil súpumanneskja og átti því ekkert erfitt með að borða þessa súpu þrjá daga í röð. Hún fer vel í maga, er stútfull af næringu og hollum kryddum og sérstaklega hreinsandi fyrir líkamann.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: gulrætur, kartöflur, rauðlaukur
Krydd: engifer, karrý (inniheldur ýmsar krabbameinshamlandi kryddtegundir), túrmerik + svartur pipar

Uppskrift

1 rauðlaukur (lítillega afhýddur – ystu lögin innihalda mest af virkum plöntuefnum)
10 gulrætur niðurskornar
2 bökunarkartöflur – lítillega afhýddar (góðu efnin eru í hýðinu)
1-2 msk. engifer
3 bollar vatn (meira ef súpan er of þykk)
1 dós kókosmjólk
2 gerlausir grænmetisteningar (t.d. frá Rapunzel)
1-2 msk. rautt karrý (ég notaði blue dragon)
1 tsk. túrmerik + svartur pipar
1-2 msk. fiskisósa (má líka vera sojasósa/tamari sósa)
salt eftir smekk.

Hitið olíu í potti og steikið allt grænmetið í nokkrar mínútur. Bætið kryddunum út í og steikið í 1-2 mínútur til viðbótar og bætið þá fiskisósu út í. Hellið vatni út í og grænmetisteningum. Látið malla í 1 klst. Maukið, bætið kókosmjólk út og berið fram.

Filed under: chili pipar, engifer, gulrætur, kartöflur, kóríander, kúmin, laukur, Súpur, svört sinnepsfræ, túrmerik, Uncategorized, Vegan

Tælenska æðið – tveir góðir réttir

Ég virðist vera með æði fyrir tvennu þessa dagana, þ.e. tælenskum mat og hindberjum.  Ég rúlla milli tælensks og indversks æðis og geri ráð fyrir að indverski maturinn fari að detta inn á næstunni þar sem ég var að fá fjórar bækur um indverska matargerð í póstinum rétt í þessu.

Mig langar að deila með ykkur tveimur góðum uppskriftum að tælenskum mat.Sú fyrri er uppskrift sem ég geri mjög reglulega og hef í raun fjallað áður um hér á síðunni. Ég er enn að þróa hana og langar þvi að deila með ykkur nýjustu útgáfunni. Ég er svo yfir mig hrifin af pak choy þessa dagana og tel Garðyrkjustöðina Engi eiga skilið sérstakt hrós fyrir að framleiða þetta stórkostlega ofurfæði. Pak choy er mikið notað í kínverska og tælenska matargerð, sem og aðra asíska matargerð, og er einnig oft kalla bok choy. Pak choy er sérlega ríkt af C vítamíni sem og A og K vítamíni en einnig mjög ríkt af kalki, kalíumi og magnesíumi. Það er einnig talið hafa eiginleika til að vinna gegn myndun og vexti krabbameins (sjá til dæmi hér og hér). Ég tók stuttan netrúnt og fann ýmislegt í þá áttina. Endilega kíkið á:

Umfjöllun Dr. Oz um 5 krabbameinshamlandi fæðutegundir, m.a. Pak choy.

Umfjöllun á heimasíðu Lance Armstrong um pak choy

Ég býst við að pak choy fáist í flestum heilsubúðum. Ég keypti það í Melabúðinni – þar er alltaf gott úrval. Ég notaði pak choy í  báðar uppskriftirnar. Hér kemur fyrri uppskriftin. Byrjum samt á einni mynd af pok choy, íslenskri papriku og tælensku basil sem allt fóru í réttinn.

Ég er nýbyrjuð að nota tælenskt basil. Það er allt öðruvísi en hin hefðbundna basilika sem við setjum á caprese salatið með mozarella ostinum og tómötunum. Þessi lyktar eins og lakkrís og minnir því óneitanlega á fennel og anís. Ég þorði nú ekki að setja mikið en mun án efa þróast í þessu með tímanum.

Næst var það engifer og hvítlaukur, já og nóg af báðu. Í uppskriftinni eru 3 msk. af sökuðu fersku engiferi og 2 msk. saxaður hvítlaukur. Ég fæ að sjálfsögðu ekki nóg af því að tala um jákvæða eiginleika bæði hvítlauks og engifers en ég geri þó ráð fyrir að flestum lesendum síðunnar sé orðið nokkuð ljóst að hér eru ofurkrydd á ferð. Fyrsta innleggið á facebook veggnum mínum var um engifer núna þegar ég opnaði tölvuna og ætla ég því að láta það duga sem innlegg í hvítlauks- engiferumræðuna þessu sinni. Kíkið á umfjöllunina hér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Grænmeti: pak choy, paprika
Krydd: 
hvítlaukur, engifer, chili, túrmerik, rautt karrý
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað með eldhúspappír og skorið í bita
1-2 msk. hágæða olía til steikingar (t.d. repjuolía frá Rapunzel)
1/2 poki pak choy frá Engi
1 stór græn paprika niður skorin
1 stór rauður chili pipar smátt saxaður
3 msk. saxað ferskt engifer
2 msk. saxaður hvítlaukur
1 tsk. túrmerik + svartur pipar
2-3 msk. rautt karrýmauk
1 dós kókosmjólk
2 msk. fiskisósa
4 lime lauf (fást þurrkuð úr sömu línu og tælenska basilið á myndinni hér að ofan)
1 msk. hunang
1/4-1/2 tsk. tælenskt basil

Byrjið á því að hita olíuna og steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Gætið þess að vera búin að þerra tófúið vel áður en byrjað er að steikja – annað gerir steikinguna erfiða. Takið tófúið af pönnunni og bætið hvítlauk, engiferi, papriku og chili á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því næst rauðu karrýi, túrmeriki og svörtum pipar og steikið áfram í tæpa mínútu. Hellið þá kókosmjólk og fiskisósu saman við og hrærið vel. Bætið lime laufum, pak choy og hunangi saman við og látið malla í 5-7 mínútur. Bætið tófúinu saman við sem og basili. Saltið örlítið eftir smekk og berið fram með hrísgrjónum.

Og síðan er komið að seinni uppskriftinni. Hún var ekki verri. Ég notaði líka tófú í hana en að sjálfsögðu er hægt að nota kjúkling eða bara grænmeti ef ykkur hugnast það frekar. Ég notaði aftur pak choy en auk þess hnúðkál. Ég held að minnsta kosti að það sé íslenska þýðingin. Þetta kallast romanesco á ensku og er notað í eina af mínum uppáhalds uppskriftum á 101cookbooks heimasíðunni sem ég er svo hrifin af (sjá uppskriftina hér). Ég get ekki talið öll skiptin sem við gerðum þessa uppskrift í Vancouver. En aftur að efninu. Það sem er einnig sérstakt við þessa uppskrift er að ég notaði ferska shitake sveppi í hana. Þá fékk ég, eins og pok choy, í yndislegu Melabúðinni. Hér kemur mynd af þessum flottu sveppum sem ég nældi mér í.

Shitake sveppir eru taldir hafa einstakan lækningamátt. Bandaríska krabbameinstofnunin fjallar um krabbameinshamlandi áhrif shitakesveppsins á mjög athyglisverðan hátt þar sem fram kemur að shitake sveppurinn styrki ónæmiskerfi líkamans og þannig vinni gegn myndun krabbameins. Sjá nánar um þetta hér. En nú held ég að ég sé að setja lengdarmet og ætla því að koma uppskriftinni frá mér.


Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: pak choy, hnúðkál, laukur
Sveppir: shitake sveppir
Krydd: 
hvítlaukur, chili
Baunir: sojabaunir

Uppskrift
fyrir 4

1 pakki tófú – vel þerrað og skorið í bita
sesamolía til steikingar
1 blaðlaukur skorinn í mjóar ræmur
1 haus hnúðkál/romanesco skorinn í bita
1 pakki shitakesveppir – 150 gr.
2 msk. soja sósa
(ég átti ekki til gulrætur en mun án efa setja þær með næst)

Hnetusósan
1 msk. sesamolía
2 hvítlauksrif smátt söxuð
1-2 rauðir chili fræhreinsaðir og saxaðir
3/4 bolli jarðhnetur
2/3 bolli kókosmjólk
2 msk. hoisin sósa
1 msk. soja sósa
1 msk. hunang

Gott er að byrja á því að gera hnetusósuna og láta hana standa á meðan allt annað er gert ready. Hitið olíuna og steikið hvítlauk og chili þar til það er farið að brúnast. Bætið þá hnetunum saman við og látið þær krauma í 2-3 mínútur á pönnunni. Bætið síðan afgangnum af innihaldsefnunum saman við og látið malla í nokkrar mínútur – eða þar til sósan er orðin þykk og girnileg.

Næst er að steikja tófúið. Steikið tófúið þar til það hefur brúnast á öllum hliðum. Tófústeikingarsérfræðingurinn á mínu heimili tók þetta að sér og það leit svona út eftir steikingu – frekar flott hjá honum.

Eins og sést á myndinni er tófúið steikt og því næst tekið af pönnunni og lagt á eldhúsbréf. Næst er að steikja grænmetið. Notið áfram sesamolíu til steikingar og byrjið á að steikja hnúðkálið og sveppina, síðan blaðlaukinn og pak choy-ið. Hellið því næst sojasósunni yfir. Bætið tófúinu á pönnuna og blandið saman við. Hellið hnetusósunni yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!

Filed under: basil, chili, chili pipar, engifer, hnúðkál, hnetur, hvítlaukur, laukur, paprika, Sósur, sojabaunir, svartur pipar, Sveppir, Tófú, túrmerik, Uppáhalds, Vegan, , , , , , , , , ,

Gamaldags matur með hollri viðbót

Stundum fær dóttir mín að ráða. Frekar oft á sumum sviðum. Sjaldnar á öðrum. Þegar kemur að mat þá fær hún yfirleitt að ráða þegar við erum bara tvær í kotinu og oftast verður fiskur þá fyrir valinu. Ég kaupi þá yfirleitt silungsflök og við borðum þau með krydduðum sætum kartöflum. Það finnst okkur mjög gott. En það er þó ekkert betra að hennar mati en steiktur fiskur í raspi. Svo að síðast þegar við vorum tvær hér heima þá borðuðum við fisk í raspi uppá gamla mátann. Mér finnst það ágætt stundum en ég reyni þó alltaf að bæta örlítilli aukahollustu við þennan þjóðarrétt okkar. Í þetta skiptið steikti ég lauk og tómata með túrmeriki, svörtum pipar og tandoori kryddi. Þannig náði ég að bæta fullt fullt af hollustu í kvöldmatinn okkar. Túrmerik er eins og ég hef áður fjallað um algjört undrakrydd. Það var áður fyrr kallað saffran fátæka fólksins í Indlandi en er nú kallað gullnáma Indland, þar sem lækningarmáttur þess er svo gífurlega mikill og fjölbreyttur. Virka efnið í túrmeriki, kúrkúma, verður margfalt öflugra ef að túrmerik kemst í tæri við olíu og svartan pipar. Þess vegna er mælt með að elda túrmerik á sama hátt og gert er í Indlandi þegar búið er til masala. Þá er laukur og hvítlaukur steiktur fyrst upp úr olíu og kryddunum síðan blandað saman við. Því næst er tómötum yfirleitt blandað saman við og þá er komin hin hefðbundna masala sósa. Þessi steikti laukur ber því keim af hefðbundinni indverskri matargerð og ber að sama skapi lækningarmátt hennar.

Þetta kom mjög vel út og passaði vel með fiskinum. Endilega prófið.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti: laukur, tómatar
Krydd og kryddjurtir: túrmerik, svartur pipar

Uppskrift
fyrir 2 svanga

1 stór laukur
6 konfekttómatar niðurskornir
1 tsk. túrmerik
½ tsk. tandoori krydd
salt og nýmalaður svartur pipar
ólífuolía eða repjuolía til steikingar

Hitið olíuna á pönnunni, bætið lauknum við og því næst kryddunum. Steikið í 3-4 mínútur við vægan hita og bætið þá tómötunum saman við. Steikið þar til tómatarnir eru orðnir mjúkir.

Filed under: laukur, Meðlæti, svartur pipar, tómatar, túrmerik, Vegan, , , ,

Kartöflusúpa með balti karrý

Ég er alveg sérstaklega hrifin af kartöflum, hvort sem það eru venjulegar kartöflur eða sætar. Ég næ þó yfirleitt að halda mig frá frönsku kartöflunum, enda algjör óþarfi að drekkja kartöflum í óhollri rjúkandi olíu til að gera þær góðar. En í þetta skiptið gerði ég kartöflusúpu. Þó svo að veðrið sé búið að vera einstaklega gott síðustu daga þá er voða gott að fá heita og saðsama súpu þegar farið er að dimma svona mikið. Ég hef haft lítinn tíma uppá síðkastið til að elda og dúlla mér í eldhúsinu svo að súpa eins og þessi var alveg kjörin, ótrúlega fljótlega og einföld. Ég notaði karrý mauk sem ég keypti í Lifandi markaði og heitir Organic Balti Curry Paste og er indverskt karrýmauk. Þar reyndist mjög gott og mæli ég því sérstaklega með því.

Ég skoða alltaf samsetningu kryddanna í því karrý sem ég kaupi. Mig langar að lista upp samsetninguna í þessari tegund til þess að varpa ljósi á hve margar krabbameinshamlandi tegundir er að finna í henni. Þetta eru öll efnin sem finnast í maukinu:

  • Tómatmauk – inniheldur mikið magn af lycopene sem er eitt öflugasta og mest rannsakaða krabbameinshamlandi efnið sem finnst í plöntum. Lycopene gefur tómötum rauða litinn og magn þess er margfalt meira í unnum og elduðum tómatvörum en í hráum tómötum.
  • Hvítlauksmauk – inniheldur diallyldisulfide sem hamlar vexti og útbreiðslu margra tegunda krabbameins, m.a. brjósta- og ristilkrabbameins, og ýtir undir frumudauða (e. apoptosis). [heimild] Virkni hvítlauks eykst við það að leyfa honum að anda áður en hann er notaður í matargerð, þannig að ráðlagt er að merja hvítlaukinn og láta hann standa í 2-3 mínútur áður en hann er notaður í matargerð.
  • Engifermauk – inniheldur efnið gingerol sem hefur andoxandi áhrif, er bólguhamlandi og hindrar framleiðslu á cox-2, sem er aðalensímið sem krabbameinsfrumur nota til að mynda bólgur [heimild: Bragð í baráttunni bls. 88 og hér].
  • Túrmerik – Mjög öflugt og mikið rannsakað krabbameinshamlandi efni sem yfir 3000 birtar rannsóknir sýna fram á virkni þess til að vinna gegn bólgum og vexti og myndun krabbameins [heimild]
  • Garam masala – inniheldur kóríander, kanil, engifer og negul – allt krabbameinshamlandi kryddtegundir
  • Chili, cumin, túrmerik, kóríander negul og kanil – allt krabbameinshamlandi kryddtegundir. Sjá nánar hér sem og undir greinar.
  • Auk þess: sólblómaolíu og hvítvínsedik

En aftur yfir í kartöfluumræðuna. Kartöflur eru ein þeirra fæðutegunda sem rannsóknir sýna að hafi krabbameinshamlandi áhrif. Raunar eru það ekki kartöflurnar sjálfar, heldur hýðið sem hefur krabbameinshamlandi áhrif. Svo ég hvet alla til að borða hýðið af kartöflunum. Í súpu eins og þessari er ekkert mál að hafa hýðið með. Þegar súpan er maukuð í lokinn maukast hýðið með og maður tekur ekkert eftir því. Í bókinni Bragð í baráttunni er fjallað um krabbameinshamlandi áhrif kartöfluhýðis og þar segir eftirfarandi:

,,Allur matur úr jurtaríkinu er mjög mikilvægur í krabbameinsforvörnum og án vafa eitt beittasta vopnið gegn öllum tegundum krabbameins, sérstaklega í meltingarfærum. Sumar jurtir geta jafnvel komið okkur á óvart! Til dæmis hin hógværa kartafla, sér í lagi mjölvamiklar tegundir. Henni er oft raðað í flokk með fæðu sem hefur ekki mikið næringargildi en miklu síður litið á hana sem mikilvæga krabbameinsforvörn! Við könnuðum samt möguleika hennar á að hafa áhrif á vöxt einangraðra magakrabbameinsfrumna. Þó svo að kartaflan sjálf hafi ekki sýnt nein krabbameinshamlandi áhrif tókum við eftir því að kartöfluhýðið reyndist hafa öflug, hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfrumna (mynd 15 [sjá bls. 53 í bókinni]. Þessi óvænta niðurstaða sýnir hversu krabbameinshamlandi sameindir eru sterkur eðlisþáttur fæðu úr jurtaríkinu og mikilvægi þess að neyta sem allra flestra tegunda fæðu úr þessum flokki til að koma í veg fyrir krabbamein.“

Þetta er ótrúlega merkilegt. Kartöfluhýðið inniheldur sem sagt mikið af krabbameinshamlandi efnum og myndin sem birtist með þessum texta sýnir þetta á skýran hátt. Merkilegt!

En áður en ég fer í uppskriftina langar mig að benda öllum á sérblað um umhverfismál og umhverfisvænar vörur í Fréttablaðinu í dag. Fullt af góðum upplýsingum um mikilvægt málefni.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: mangó
Grænmeti: kartöflur, púrrulaukur
Krydd: engifer, hvítlaukur, chili, túrmerik, cumin, kóríander, negull, kanill, steinselja
Annað: jógúrt

Uppskrift
fyrir 4

2 msk. repjuolía eða ólífuolía
6 stórar kartöflur niðurskornar með hýðinu
1 lítri vatn
2 msk. balti curry paste
1 tsk. herbamare original
¼ tsk. túrmerik + svartur pipar
½ púrrulaukur niðurskorin
3 hvítlauksrif niðurskorin
1 lítri af vatni
1 dós kókosmjólk
1 grænmetisteningur
2 msk. sætt mangó chutney
steinselja smátt söxuð (má líka vera ferskt kóríander)
Sýrður rjómi (má sleppa)

Skerið púrrulauk og hvítlauk niður og látið anda í nokkrar mínútur.  Hitið olíuna í potti og steikið laukinn í nokkrar mínútur við vægan hita. Bætið karrý mauki, túrmeriki og svörtum pipar saman við og haldið áfram að steikja í 1-2 mínútur. Bætið kartöflum saman við, vatni og kókosmjólk og látið suðuna koma upp. Bætið herbamare og grænmetisteningi saman við og látið sjóða í 30-40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mauksoðnar. Maukið súpuna með töfrasprota. Bætið mangó chutney og steinselju saman við og berið fram. Dropið smá sýrðum rjóma yfir eftir smekk.

Filed under: chili, chili pipar, engifer, Greinar, hvítlaukur, kanill, kartöflur, kóríander, kúmin, laukur, negulnaglar, Rannsóknir, Súpur, steinselja, svartur pipar, Tímarit, túrmerik, Umhverfismál, Uncategorized, Uppáhalds, Uppskriftir, Vegan, , , , , , , , ,

Linsubaunasúpa með appelsínum og engiferi

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:

Ávextir: appelsínur
Grænmeti: 
rauðlaukur,
Krydd: karrý, kanill
Hnetur og fræ: 
valhnetur
Baunir: linsubaunir

Uppskrift
fyrir 4-6

1-2 msk. repjuolía
3 rauðlaukar – litlir
2 litlar appelsínur niðurskornar
2 tsk. hot madras karrý + svartur pipar
1,5 lítrar vatn
2 msk. grænmetiskraftur frá himneskri hollustu
2 tsk. maldon salt (minna ef maður notar venjulegt salt)
5 cm langur bútur af fersku engiferi, niðurskorið (eða eftir smekk
1 bolli rauðar linsubaunir
kanill á hnífsoddi

Grískt jógúrt
Hunangsristaðar valhnetur

Steikið laukinn upp úr repjuolíunni í 3-5 mínútur eða þar til hann hefur linast vel. Bætið þá karrýi, engiferi, kanil og appelsínum saman við og steikið í 1-2 mínútur. Hellið vatninu saman við og bætið krafti og salti saman við. Látið suðuna koma upp og lækkið undir. Látið malla í 25 mínútur. Maukið og berið fram með grísku jógúrti og hunangsristuðum valhnetum.

Filed under: Jógúrt, kanill, laukur, Rauðar linsubaunir, Rauðar linsubaunir, sítrus ávextir, Súpur, svartur pipar, túrmerik, Uppskriftir, valhnetur, , , , , ,

Grænt salat með krydduðum valhnetum, trönuberjum og mozarella osti

Í þessu salati eru krydduðu valhneturnar aðal málið. Þó svo að allt þetta græna og góða sé virkilega hollt eru það valhneturnar sem setja puntinn yfir i-ið hvað hollustu og virkni varðar. Valhnetur eru sérstaklega ríkar af omega-3 fitusýrum og eru líklega einhverjar þær hollustu hnetur sem maður fær. Hér eru valhneturnar kryddaðar með hollum indverskum kryddum eins og túrmeriki sem er ein virkasta kryddjurtin sem vinnur gegn krabbameini. Eins og ég hef áður fjallað um þá er mikilvægt að túrmeriki sé blandað saman við smá olíu og svartan pipar, það eykur áhrif þess margfalt. Trönuberin bæta svo örlítið sætu við salatið og osturinn mýkir það og bætir fyllingu við það. Það er líka örugglega mjög gott að setja mjúkan geitaost í staðin fyrir mozarella ostinn. Ég ætla að gera það næst. Endilega prófið þetta salat, það hentar mjög vel með fiski og kjúklingi.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir
: trönuber
Grænmeti: klettasalat, laukur
Krydd: túrmerik, cumin, kóríander
Hnetur: valhnetur

 

Uppskrift
fyrir 4 

Salat
1 poki klettasalatsblanda
1/3 agúrka niðurskorin
½ smátt saxaður rauðlaukur
1 bolli niðurskorinn ferskur mozarella ostur
½ bolli þurrkuð trönuber
1-2 msk. sítrónuolía eftir smekk

Kryddaðar valhnetur
1 bolli valhnetur
1 tsk. cumin duft
1 tsk. kóríander duft
¼ tsk. cayenne pipar
½ tsk. túrmerik
1 tsk. ólífuolía
¼ tsk. salt
nýmalaður svartur pipar
2 msk. akasíu hunang

Blandið klettasalatsblöndu, lauk, agúrku, trönuberjum, mozarella osti og sítrónuolíu saman í skál og leggið til hliðar.

Blandið kryddunum saman í skál. Hitið pönnu og ristið valhneturnar á heitri pönnu í nokkrar mínutur. Passið að þær brenni ekki. Takið pönnuna af og blandið kryddunum vel saman við. Bætið örlítilli ólífuolíu á pönnuna til að virkja túrmerikið. Hellið síðan hunanginu yfir og setjið pönnuna aftur á helluna og látið hitna vel í rúmlega mínútu. Takið af pönnunni og látið kólna.

Blandið hnetunum saman við salatið og berið fram.

Filed under: chili pipar, kóríander, kúmin, klettasalat, laukur, Salöt, svartur pipar, túrmerik, trönuber, valhnetur

Blómkálssúpa með smjörbaunum

Þessi súpa er ekkert nema bara hollusta. Allt sem að í hana fór var hollt og nærandi fyrir líkamann auk þess að vera einnig gott. Þetta er hins vegar ekki hin hefðbundna blómkálssúpa sem þið þekkið og hafið fengið áður. Þessi er bragðmikil og virkileg matarmikil.

Mig langar að fjalla aðeins um blómkál og næringargildi þess. Blómkál flokkast sem eitt af hinu svokallaða cruciferous grænmeti sem eru þær grænmetistegundir sem alltaf er talað um í sambandi við forvarnir gegn krabbameini. Spergilkál hefur þá yfirleitt fengið hvað mesta athygli, en blómkálið er ekki síður gott og næringarríkt. Blómkál inniheldur mikið af C-vítamíni, K-vítamíni og fólínsýru auk þess að innihalda fjöldann allan af öðrum næringarefnum sem eru góð fyrir líkamann. Það inniheldur omega 3 í formi ALA fitusýru og vinnur það með K-vítamíninu gegn bólgum í líkamanum. Túrmerikið vinnur svo auk þess líka gegn bólgum og má því segja að þessi súpa sé eiginlega alveg sérstök þegar litið er til samspils innihaldsefnanna og áhrifa þeirra á líkamann.

Ég er svolítið gjörn að meta næringargildi matar út frá litum vegna þess að litsterkur matur er yfirleitt sérstaklega hollur fyrir líkamann. Sumir vilja helst ekki nota rauðrófur, tómatvörur eða túrmerik af því það er gjörsamlega vonlaust að ná þeim blettum úr fötum, en þetta eru hins vegar þær fæðutegundir sem innihalda hvað mest af plöntuefnum (phytochemicals) sem eru svo ótrúlega mikilvæg fyrir varnir líkamans gegn ýmsum kvillum, t.d. krabbameini. Til dæmis er plöntuefnið sem finnst í tómötum, þ.e. lycopene, sérstaklega virk forvörn gegn blöðruhálskirtilskrabbameini og yfirleitt er hvað mest af lycopene í unnum tómatvörum, þ.e. tómatmauk og sólþurrkuðum tómötum. Ég mun fljótlega birta grein hér sem ég er að vinna í sem fjallar um plöntuefnin og mismunandi tegundir þeirra.

En þrátt fyrir að blómkálið sé nánast litlaust þá er það langt frá því að vera næringarsnautt. Sama er að segja um hvítlaukinn og laukinn sem er ekki sparaður í þessari uppskrift og gera einstakt bragð. Ekki hafa áhyggjur af því að kæfa næsta mann eftir þessa máltíð, vegna þess að hvítlaukurinn er það mikið eldaður að hann á ekki að finnast mikið. Smjörbaunirnar eru svo algjört ofurfæði, einstaklega ríkar af trefjum, járni, magnesíum, fólínsýru og fleiri mikilvægum næringarefnum. Smjörbaunir eru fitusnauðar og kólesteróllækkandi og því góðar fyrir þá sem eru með hátt kólesteról sem og þá sem eru með sykursýki. Það ættu allir að reyna að komast upp á lagið með að elda úr smjörbaunum. Þær eru heppilegar í buff, súpur, pottrétti og margt fleira.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Ávextir: mangó
Grænmeti: blómkál, laukur
Krydd: hvítlaukur, túrmerik, svartur pipar, cumin, paprika, chili, steinselja
Braunir og kornmeti: smjörbaunir


Blómkálssúpa
6-8 manns

2 blómkálshausar
2 laukar
1 heill hvítlaukur
3 msk. kókosolía
2 msk. grænmetiskraftur frá Himneskri hollustu
2 tsk. salt – herbamare með kryddjurtum
½ tsk. túrmerik + svartur pipar
½ tsk. cumin
1 tsk. paprikukrydd
1,5 l vatn
½ – 1 tsk. þurrkaðar chiliflögur
2 dósir smjörbaunir – skolaðar
2 msk. mangó chutney
salt og pipar eftir smekk
fersk steinselja til skrauts (má sleppa)

Merjið hvítlaukinn og látið anda. Hitið olíuna í stórum potti og steikið laukinn og hvítlaukinn í 2-3 mínútur. Bætið þá túrmeriki, svörtum pipar og chiliflögum á pönnuna og steikið í aðrar 2 mínútur. Bætið blómkálinu næst í pottinn og svo vatninu, grænmetiskraftinum og saltinu. Látið suðuna koma upp og sjóðið í um 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið mjúkt í gegn. Maukið súpuna þá með töfrasprota og kryddið með paprikukryddi,cumini og mangó chutney. Bætið að lokum smjörbaunum saman við og látið þær hitna í gegn. Skreytið með paprikukryddi og ferskri steinselju. Berið fram með nýbökuðu brauði.

Filed under: blómkál, chili, hvítlaukur, laukur, mangó, paprika, Súpur, smjörbaunir, smjörbaunir, steinselja, svartur pipar, túrmerik, , , , , , , , , , , , ,

Sætar kartöflur með karrý og grænkáli

Þessi kom skemmtilega á óvart. Ótrúlega einfaldur og fljótlegur réttur, stútfullur af mikilvægum og öflugum næringarefnum. Grænkálið er algjört ofurfæði sem allir ættu að reyna að koma inn í mataræðið hjá sér. Það er næringarríkasta cruciferous grænmetið, uppfullt af A-vítamíni, C-vítamíni, K-vítamíni, kalki, járni og fleiri steinefnum. Það er bólguhamlandi og inniheldur mikið magn andoxunarefna. Þessir eiginleikar grænkáls gera það afar krabbameinshamlandi. Fyrir þá sem ekki geta nálgast grænkál er örugglega fínt að nota spínat í þennan rétt í staðin fyrir grænmálið (nota heilan poka).

Næringarinnihald grænkáls minnkar við suðu og þess vegna er best að elda það sem allra minnst (að sjálfsögðu best að borða það hrátt). Þess vegna vil ég benda á að það er mikilvægt að setja grænkálið ekki útí réttinn fyrr en kartöflurnar eru næstum því tilbúnar, svo að næringarinnihald grænkálsins haldist sem best.

Næst á dagskrá er svo að byrja að drekka græna drykki á morgnanna með grænkáli. Ég leyfi ykkur að fylgjast með raunum mínum á þeirri vegferð þegar þar að kemur.

Uppskriftin inniheldur eftirfarandi krabbameinshamlandi fæðutegundir:
Grænmeti
: sætar kartöflur, grænkál
Krydd og kryddjurtir: hvítlaukur, chili,  cumin, túrmerik, svartur pipar

Uppskrift
fyrir 4 með mat

1-2 msk. kókosolía
1 msk. madras curry paste – cumin og chili hot (frá Pataks)
2 meðalstórar sætar kartöflur skornar í bita
1/2 búnt grænkál niðurskorið
4 stór hvítlauksrif marin
1/4 tsk. túrmerik
svartur pipar
1 lítil dós kókosmjólk + dósin fyllt 1 sinni með vatni
1 tsk salt

Byrjið á því að merja hvítlaukinn og leyfið honum að anda.

Hitið olíuna á pönnu og bætið hvítlauknum, karrýmaukinu, túrmerikinu og svörtum pipar á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur. Bætið þá kartöflunum á pönnuna og steikið í 3-4 mínútur. Bætið því næst kókosmjólkinni, vatninu og salti saman við og hrærið. Lokið pönnunni og látið sjóða í um 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru næstum því mjúkar í gegn. Bætið þá grænkálinu saman við og hrærið. Sjóðið í nokkrar mínútur með opna pönnuna þar til kartöflurnar eru alveg tilbúnar og aðeins hefur gufað upp af vökvanum. Berið fram.

Filed under: chili, grænkál, hvítlaukur, Karrý, kartöflur, Kartöflur, kúmin, Meðlæti, svartur pipar, túrmerik, Vegan, , , , , , , , ,

Kjúklingur með sítrónu og kóríander

Þessi uppskrift er æðisleg. Ég hef gert hana ótalsinnum og hún stendur alltaf fyrir sínu. Upphaflega er hún úr bók eftir Madhur Jaffrey, eins og svo margar af indversku uppskriftunum sem ég elda, en ég hef hins vegar þróað hana með mér með tímanum og þannig gert talsverðar breytingar á upphaflegu uppskriftinni. Madhur Jaffrey bækurnar eru góðar fyrir þá sem eru að byrja að elda indverskan mat, þær eru frekar einfaldar og flestar mjög góðar. Eitt sem ég hef þó orðið vör við hjá henni er það að hún notar alveg ógrynni af salti, og ég nota yfirleitt þá þumalputtareglu þegar ég elda upp úr bókunum hennar að minnka saltið um helming.

Þessi uppskrift inniheldur nánast eingöngu fæðutegundir sem teljast krabbameinshamlandi. Mig langar aðeins að fjalla nánar um hvítlauk núna, þar sem ég á að vera löngu búin að leggja áherslu á mikilvægi þessarar yndislegu kryddjurtar sem ég finn einhverja leið til þess að nota í nánast allt sem ég elda. Hvítlaukur er ein elsta lækningarjurtin sem þekkist. Vegna sýkladrepandi eiginleika hvítlauks hefur hann verið notaður í hundruðir ára til að vinna gegn sýkingum. Í síðari heimstyrjöldinni var hvítlaukur notaður í miklu mæli á særða hermenn til að koma í veg fyrir sýkingar og einnig þegar skortur var á sýklalyfjum (sjá Anti Cancer bls 121). Read the rest of this entry »

Filed under: chili, engifer, hvítlaukur, kóríander, kúmin, Kjúklingur, sítrus ávextir, svartur pipar, túrmerik, Uppáhalds, Uppskriftir, , , , , , , , , ,

Krabbamein

Á hverju ári greinast yfir 12 milljónir manns í heiminum með krabbamein og yfir 7 milljónir deyja vegna sjúkdómsins. Þrátt fyrir þessar ógnvekjandi tölur er krabbamein sjúkdómur sem margir telja að hægt sé að koma í veg fyrir með heilbrigðum lífstíl og réttu mataræði. World Cancer Research Fund hefur fullyrt að þriðja hvert krabbameinstilfelli tengist beint lélegu mataræði og þá yfirleitt skorti á fæðu úr plönturíkinu. Af þessu leiðir að óhollt mataræði er orðið gífurlega alvarlegt vandamál í heiminum og er brýnt að gripið sé inn í með uppfræðslu um nauðsyn holls mataræðis og heilbrigðra lifnaðarhátta. Fjöldi rannsókna sýna fram á mátt vissra fæðutegunda til þess að vinna gegn krabbameinsfrumum í líkamanum og þannig uppbyggingu lífshættulegra meina.

Staðreyndir

Ekkert lyf eða vítamín getur komið í stað heilsusamlegs mataræðis, sem er uppfullt af næringu úr jurtaríkinu, snautt af mettaðri fitu, ríkt af fjölómettuðum omega-3 fitusýrum og þar sem trefjaríkar kornvörur eru kjölfestan í þeim kolvetnum sem borðuð eru.
Tengsl milli krabbameins og bólgu eru mikil og margar tegundir æxla virðast helst myndast í bólguvef. Ýmsir bólgusjúkdómar auka því líkurnar á krabbameini í viðkomandi líffærum.
Mikil neysla á fæðu sem inniheldur óholla fitu, sykur og rautt kjöt samfara skorti á fæðu úr jurtaríkinu veldur bólguhvetjandi ástandi í líkamanum, sem á sama tíma eykur líkurnar á myndun krabbameins.
Omega-3 fitusýrur eru bólguhemjandi á meðan omega-6 fitusýrur eru bólguhvetjandi. Því er mikilvægt að jafnvægi sé milli þessara tveggja fitusýra í líkamanum.
Flestir innbyrða u.þ.b. 25 sinnum meira af omega-6 fitusýrum en omega-3 fitusýrum. Þetta stuðlar að bólguviðbrögðum í líkamanum sem getur aukið líkurnar á krabbameini.
Enginn getur útrýmt hættunni á því að þróa með sér krabbamein. En fólk getur hins vegar minnkað líkurnar talsvert með því að taka ábyrgð á eigin heilsu og gera þær lífstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru.

Hafa samband

Ég heiti Þórunn Steinsdóttir og er lögfræðingur og einnig mikil áhugamanneskja um matargerð, holla lifnaðarhætti og forvarnir gegn krabbameini. Ég eyði miklum tíma í matargerð og að kynna mér mikilvægi heilbrigðs mataræðis sem forvörn gegn krabbameini. Hér mun ég miðla upplýsingum um efnið og uppskriftum sem innihalda fæðutegundir sem vinna gegn krabbameini.
Endilega sendið mér tölvupóst ef upp vakna spurningar um efni síðunnar á matturmatarins@gmail.com.

Sláið inn tölvupóstfang og ýtið á "gerast áskrifandi"

Join 403 other followers

Flokkar

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 403 other followers

%d bloggers like this: